Ekkert grín að vera fimm mörkum undir

Elvar Örn Jónsson sækir að marki Hauka í kvöld.
Elvar Örn Jónsson sækir að marki Hauka í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við vissum alveg að við gætum gert þetta. Við höfum gert þetta áður síðustu tvö ár. Við gefumst aldrei upp," sagði kampakátur Elvar Örn Jónsson í samtali við mbl.is í kvöld. 

Elvar skoraði sex mörk fyrir Selfoss í 32:30-sigri á Haukum í framlengdum þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta. Haukar voru fimm mörkum yfir þegar skammt var eftir, en með mögnuðum endaspretti náðu Selfyssingar að knýja fram framlengingu. 

„Sölvi kom inn í markið hjá okkur og varði nokkra mjög flotta bolta. Varnarleikurinn okkar þéttist þegar við breyttum í 6:0-vörn og með frábærum varnarleik síðustu tíu þá náðum við þessu."

Selfyssingar hafa gert það að sérgrein hjá sér að vinna leiki á lokasprettinum, eftir að hafa lent undir. 

„Þetta er stærsta endurkoman hjá okkur. Það er ekkert grín að vera fimm mörkum undir á Ásvöllum á móti svona sterku Haukaliði. Þetta er gríðarleg liðsheild sem skilaði þessu."

Við gefumst aldrei upp

Hann (Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfoss) segir alltaf að við getum þetta. Fimm mörk eru ekki neitt þegar tíu mínútur eru eftir. Maður getur unnið upp þriggja marka forskot á mínútu og við vorum helvíti fljótir að minnka muninn enda höfðum við trú á verkefninu. Við gefumst aldrei upp.

Elvar missti boltann í síðustu sókn Selfyssinga í venjulegum leiktíma, þar sem Selfoss gat tryggt sér sigurinn. 

„Okkur leið mjög vel að komast í framlengingu. Við hefðum getað unnið þetta í venjulegum leiktíma en ég klikkaði þá. Strákarnir stóðu hins vegar með mér og við keyrðum í þessa framlengingu og gáfum allt í þetta."

Selfoss verður Íslandsmeistari í fyrsta skipti með sigri á fjórða leiknum á heimavelli á miðvikudaginn. „Það verður geggjað. Það verður troðfullt hús og við mætum brjálaðir til leiks. Við ætlum að sigra á miðvikudaginn," sagði Elvar Örn. 

mbl.is