Daníel á förum frá ÍBV

Daníel Örn Griffin með skot í leik gegn Haukum í …
Daníel Örn Griffin með skot í leik gegn Haukum í úrslitakeppninni í vor. mbl.is/Hari

Daníel Örn Griffin, leikmaður U21-landsliðsins í handbolta, hefur ákveðið að nýta riftunarákvæði í samningi sínum við ÍBV og yfirgefa félagið.

Daníel hefur leikið með yngri landsliðum Íslands og var meðal annars í U21-landsliðinu sem hafnaði í 7. sæti á EM í Slóveníu á síðasta ári. Hann var í síðasta æfingahópi liðsins sem kallaður var saman í apríl, en liðið leikur á HM á Spáni í júlí og verður þar í riðli með Þýskalandi, Danmörku, Noregi, Argentínu og Síle.

Daníel, sem er tvítugur, mun hafa verið ósáttur við hlutskipti sitt hjá ÍBV í vetur en hann kom við sögu í 18 leikjum í Olís-deildinni og skoraði 11 mörk. Hann fékk að spila talsvert meira í leikjum liðsins leiktíðina 2017-2018 þegar ÍBV varð þrefaldur meistari.

mbl.is