HK fær mikinn liðsstyrk

Kristín Guðmundsdóttir er komin til liðs við HK.
Kristín Guðmundsdóttir er komin til liðs við HK. Ljósmynd/HK

Hún var valin besti leikmaður Íslandsmótsins 2015, hefur spilað hátt í 50 landsleiki fyrir Ísland og verið einn af bestu leikmönnum úrvalsdeildarinnar um árabil. Nú er Kristín Guðmundsdóttir gengin í raðir HK þar sem hún verður spilandi aðstoðarþjálfari.

Kristín kemur til HK frá Stjörnunni þar sem hún skoraði 48 mörk í 19 deildarleikjum í vetur. Þar áður var hún hjá Val um árabil en hún varð Íslandsmeistari í þrígang með liðinu árin 2010-2012 og með Stjörnunni árið 2005.

HK fékk á dögunum einnig til sín Hafdísi Shizuka Iura frá Fram. Þessi 25 ára gamli leikstjórnandi lék með HK sem lánsmaður á seinni hluta síðasta tímabils en hefur nú skrifað undir samning til tveggja ára við HK.

HK endaði í 7. sæti úrvalsdeildarinnar í vor og varð að fara í umspil til að halda sér uppi í deildinni, þar sem liðið vann Fylki 3:1 eftir að hafa slegið út FH.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert