Ísland í riðli með Þýskalandi og Danmörku

Teitur Örn Einarsson í leik með U21 árs landsliðinu.
Teitur Örn Einarsson í leik með U21 árs landsliðinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í morgun var dregið í riðla á heimsmeistaramóti U21 árs karlalandsliða í handbolta sem fram fer í Vigo og Pontevedra á Spáni 16.-28. júlí í sumar.

Ísland verður í D-riðli ásamt Danmörku, Síle, Argentínu, Noregi og Þýskalandi en 24 þjóðir keppa til úrslita um heimsmeistaratitilinn. Ísland var í öðrum styrkleikaflokki í drættinum ásamt Spáni, Egyptalandi og Króatíu.

Þjálfari U21 árs landsliðsins er Einar Andri Einarsson, þjálfari karlaliðs Aftureldingar og aðstoðarmaður hans er Sigursteinn Arndal sem nýlega var ráðinn þjálfari karlaliðs FH.

Barein, sem Halldór Jóhann Sigfússon þjálfar, lenti í C-riðli ásamt Portúgal, Króatíu, Ungverjalandi, Brasilíu og Kosóvó. Riðlana má sjá hér að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert