Ég er stoltur af mínum strákum

Aron Kristjánsson, Gunnar Magnússon, Daníel Þór Ingason, Heimir Óli Heimisson.
Aron Kristjánsson, Gunnar Magnússon, Daníel Þór Ingason, Heimir Óli Heimisson. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Í kvöld var eitt af þessum kvöldum þar sem ekkert gekk upp hjá okkur. Maður upplifir það sem betur fer ekki oft sem þjálfari að það sé sama hvað er reynt, ekkert gengur upp,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is í kvöld eftir að lið hans varð að játa sig sigrað í kapphlaupinu við Selfoss um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Selfoss vann með tíu marka mun, 35:25, eftir að hafa ráðið lögum og lofum nær allan leiktímann.

Gunnar sagðist vilja óska leikmönnum og þjálfurum Selfoss innilega til hamingju með titilinn.

„En engu að síður þá verð ég að segja að eins og Elvar Örn Jónsson lék í leikjunum á móti okkur þá er hann nánast svindlkarl.Hann var algjörlega óviðráðanlegur. Haukur Þrastarson lék einnig framúrskarandi vel og tók varla ranga ákvörðun í leikjunum fjórum við okkur.  Þarna eru á ferðinni tveir leikmenn sem eiga eftir að verða í heimsklassa innan örfárra ára. Þeir eru stórkostlegir og hreinlega óviðráðanlegir. Þegar við bætist stórleikur Sverris Pálssonar í vörninni og markvarslan hjá Sölva Ólafssyni þá er ekki auðvelt að eiga við Selfoss-liðið,“ sagði Gunnar sem gengur sáttur frá keppnistímabilinu þótt það sé svekkjandi að tapa einvígi um titilinn.

„Ég er stoltur af mínum strákum. Tímabilið var gott. Við urðum deildarmeistarar eftir að hafa leikið vel í deildinni. Það er frábært að vinna deildina sem langhlaup. Úrslitakeppnin var erfið með tólf leikjum þar sem við lékum átta eða níu leiki hreinlega frábærlega. Strákarnir hafa gefið allt í úrslitakeppnina og gátu ekki gefið meira. Ég lagði allt fram sem ég gat lagt fram í úrslitakeppnina. Sömu sögu er að segja um aðra sem eru í kringum liðið. Við vildum vinna titilinn en það tókst ekki. Maður vinnur ekki alltaf. Ég get ekki sakast við neinn. Uppskeran er deildarmeistaratitillinn, silfur í úrslitakeppninni og margir frábærir leikir sem sitja eftir. Fyrir utan leikinn í kvöld lékum við vel. Þetta er svekkjandi en svona er sportið,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is.

mbl.is