Selfoss Íslandsmeistari í fyrsta sinn

Selfoss er Íslandsmeistari í handknattleik karla eftir tíu marka sigur á Haukum, 35:25, í fjórða leik liðanna í gríðarlegri stemningu í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld. Selfoss-liðið hreinlega yfirspilaði Hauka á stórum köflum í leiknum. Selfoss var yfir í hálfleik, 15:11.

Segja má að leikur Selfoss á báðum endum vallarins hafi verið hreint meistarastykki. Frábærlega útfærður og Haukar réðu ekki neitt við neitt. Þeir áttu við ofurefli að etja.

Haukar skoruðu tvö fyrstu mörk leiksins í rífandi góðri stemningu í Hleðsluhöllinni í kvöld. Eftir það má segja að þeir hafi átt erfitt uppdráttar það sem eftir var hálfleiksins. Selfoss-liðið tók völdin í leiknum og átti snemma kost á að ná þriggja marka forskoti, 7:4. Sá möguleiki gekk heimamönnum úr greipum þá en kom síðar. Varnarleikur Selfoss-liðsins var frábær í fyrri hálfleik. Varnarmenn vörðu fjölda skota auk þess sem Sölvi Ólafsson var vel vakandi í vörninni. Sverrir Pálsson fór á kostum í vörninni og leiddi Selfoss-liðið áfram. Sóknarleikur heimamenn var vel út færður. Forskotið jókst jafnt og þétt á lokakaflanum og svo fór að þegar flautað var til hálfleiks var munurinn fimm mörk, 16:11, eftir að Atli Ævar Ingólfsson skoraði rétt áður en lokaflautið gall eftir hraðaupphlaup.

Selfoss-liðið fór hreinlega hamförum í upphafi síðari hálfleiks og var komið með níu marka forskot, 23:14, eftir aðeins átta mínútur. Haukar vissu ekki hvaðan á sig stóð veðrið. Þeir svöruðu með þremur mörkum í röð eftir leikhlé auk þess sem þeir reyndu að klippa Elvar Örn Jónsson út úr sóknarleiknum. Það var skammgóður vermir því skömmu síðar, rétt fyrir miðjan hálfleikinn var munurinn kominn upp í níu mörk, 26:17. Úrslitin voru ráðin þótt mikið væri eftir. Munurinn varð mestu 11 mörk, 30:19, þegar liðlega tíu mínútur voru til leiksloka. Þá voru heimamenn löngu farnir að syngja sína sigursöngva. Munurinn fór niður í sjö mörk. Nær komust Haukar ekki áður en Selfoss-liðið gaf í botn á nýjan leik.

Hrikalega vel úr færður leik Selfoss færði liðinu þennan verðskuldaða stórsigur. Þeir yfirspiluðu Hauka algjörlega og fagna glatt sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli. Spennustigið var rétt innan Selfoss-liðsins að þessu sinni. Varnarleikurinn frábær, markvarslan góð og sóknarleikurinn eins og best verður á kosið. Það þarf enginn að velkjast í vafa hverjir eru bestir í íslenskum karlahandknattleik um þessar mundir. Síðan  var stemningin og gleðin í kringum stuðningsmenn liðsins kapítuli út af fyrir sig. Sannarlega allt til fyrirmyndar  á Selfossi. Þeir voru miklu betri.

Selfoss 35:25 Haukar opna loka
60. mín. Halldór Ingi Jónasson (Haukar) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert