Þetta hefur keyrt mann áfram

Leikmenn Selfoss fagna sigri á Íslandsmótinu í handknattleik á heimavelli …
Leikmenn Selfoss fagna sigri á Íslandsmótinu í handknattleik á heimavelli í kvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Tíu marka sigur segir sína sögu í dag,“ sagði Árni Steinn Steinþórsson, leikmaður Íslandsmeistaraliðs Selfoss, eftir að hafa fagnað sigri á Haukum 35:25, í fjórða og síðasta úrslitaleik liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.

„Við vorum klárir í slaginn í dag og sennilega voru Haukar slegnir út af laginu eftir að við stálum sigrinum í síðasta leik á heimavelli þeirra á sunnudaginn. Ég er hrikalega stoltur af liðsfélögunum og stuðningsmönnum okkar. Einbeitingin var mjög góð í því spennuþrungna lofti sem ríkt hefur í bænum í dag fyrir leiknum. Það hjálpaði okkur klárlega. Ég tel okkur hafa lært af reynslunni eftir að hafa tapað mörgum leikjum á upphafsmínútunum,“ sagði Árni Steinn.

Eftir fimm marka forskot í hálfleik, 16:11 gengu Selfyssingar alveg frá leiknum á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks þegar þeir náðu níu marka forskoti. „Það var brýnt fyrir okkur að vera grimmir fyrstu tíu mínúturnar í síðari hálfleik og koma í veg fyrir að Haukar næðu áhlaupi. Okkur tókst að gera það sem við ætluðum. Þess utan var þetta okkar dagur að þessu sinni,“ sagði Árni Steinn sem varð Íslandsmeistari með Haukum fyrir fjórum árum. Hann hefur verið afar óheppinn með meiðsli meira og minna síðan. Í ljósi síðustu ára segir hann Íslandsmeistaratitilinn nú vera sérstaklega sætan því hann hafi oft verið á mörkunum að hætta.

„Þessi von hefur keyrt mann áfram við aukaæfingarnar og endurhæfinguna. Ég fann það þegar ég kom heim aftur að strákarnir voru með þetta. Ég vildi taka þátt í þessu með þeim. Draumurinn hefur ræst,“ sagði Árni Steinn Steinþórsson, Íslandsmeistari með handknattleiksliði Selfoss.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert