Elvar Örn valinn sá besti

Darri Aronsson ræður ekkert við Elvar Örn frekar en aðrir …
Darri Aronsson ræður ekkert við Elvar Örn frekar en aðrir Haukamenn í leiknum í gærkvöld. Ljósmynd/Guðmundur Karl

Elvar Örn Jónsson úr liði Selfoss var valinn besti leikmaður úrslitakeppni Olís-deildar karla í handknattleik sem lauk í gærkvöld þegar Selfyssingar tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Elvar Örn kórónaði frábæra frammistöðu sína með því að fara algjörlega á kostum í fjórða úrslitaleiknum gegn Haukum í Hleðsluhöllinni. Hann skoraði 11 mörk í leiknum og réðu Haukarnir ekkert við hann.

Elvar skoraði 60 mörk í níu leikjum Selfyssinga í úrslitakeppninni, gaf fjölda stoðsendinga og spilaði frábæran varnarleik.

Þessi 21 árs gamli strákur heldur í sumar á vit nýrra ævintýra en hann hefur þá sinn feril með danska úrvalsdeildarliðinu Skjern og mun áfram spila undir stjórn Patreks Jóhannessonar en Patrekur tekur við þjálfun liðsins í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert