Líður að kveðjustund Guðjóns sem skoraði sex

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk í kvöld.
Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk í kvöld.

Guðjón Valur Sigurðsson skoraði sex mörk í næstsíðasta heimaleik sínum fyrir Rhein-Neckar Löwen í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld, þegar liðið vann 33:27-sigur á Göppingen.

Með sigrinum hélt Löwen sér í 3. sæti þegar þrjár umferðir eru eftir, jafnt Magdeburg að stigum með 50 stig en Magdeburg á aðeins tvo leiki eftir. Löwen er úr leik í baráttunni um efstu tvö sætin og þar með meistaradeildarsæti, en Flensburg er á toppnum með 60 stig og Kiel með 56 stig en leik til góða.

Löwen er hins vegar öruggt um sæti í EHF-keppninni á næstu leiktíð. Alexander Petersson, sem á við meiðsli að stríða, verður með liðinu þar en Guðjón Valur Sigurðsson gengur í sumar til liðs við PSG í Frakklandi.

Erlangen, liðið sem Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar, tapaði naumlega fyrir Leipzig, 26:25. Erlangen siglir eftir sem áður lygnan sjó um miðja deild, en liðið er í 9. sæti með 28 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert