Þorgeir Bjarki til nýliðanna

Þorgeir Bjarki Davíðsson er genginn til liðs við HK.
Þorgeir Bjarki Davíðsson er genginn til liðs við HK. Ljósmynd/hk.is

HK hefur fengið til sín hægri hornamanninn Þorgeir Bjarka Davíðsson frá Fram fyrir átökin í úrvalsdeildinni í handbolta á næstu leiktíð þar sem HK-ingar verða nýliðar.

Þorgeir Bjarki er uppalinn hjá Gróttu en fór til Fram árið 2016. Hann var í stóru hlutverki á sinni fyrstu leiktíð hjá liðinu, sem komst í undanúrslit Íslandsmótsins, og vann sér sæti í U21-landsliðinu sem lék á HM sumarið 2017. Þorgeir Bjarki sleit svo hins vegar krossband í hné um haustið og spilaði því aðeins fjóra leiki tímabilið 2017-2018. Í vetur skoraði hann 51 mark í 22 leikjum með Fram.

Fyrr í þessari viku greindi HK frá komu Ásmundar Atlasonar sem kemur til félagsins frá Gróttu þar sem hann er uppalinn. Ásmundur er 21 árs gamall og getur leyst stöðu leikstjórnanda og skyttu. Þá er markvörðurinn reyndi Davíð Svansson búinn að semja við Kópavogsfélagið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert