Frábær sigur en biðin heldur áfram

Eva Björk Davíðsdóttir reynir skot að marki Spánverja í leiknum …
Eva Björk Davíðsdóttir reynir skot að marki Spánverja í leiknum í kvöld. mbl.is/Eggert

Arna Sif Pálsdóttir átti stórleik þegar íslenska kvennalandsliðið í handknattleik vann frábæran eins marks sigur gegn sterku liði Spánverja í seinni leik liðanna í umspili HM í Laugardalshöll í kvöld.

Arna skoraði átta mörk í leiknum sem lauk með 32:31-sigri Íslands en liðið tapaði fyrri leiknum í Málaga á Spáni með níu mörkum, 35:26 og missir því af sæti á HM 2019 sem fram fer í Japan í nóvember og desember.

Spánverjar byrjuðu leikinn betur og komust í 2:0 en íslenska liðið gafst ekki upp, þrátt fyrir brösótta byrjun, og var staðan 2:1, Spáni í vil, eftir fimm mínútna leik. Þá kom slæmur leikkafli hjá íslenska liðinu og Spánverjar juku forskot í þrjú mörk og staðan 5:2 eftir tíu mínútur. Íslenska liðinu tókst að jafna metin í 5 :5 en þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik leiddu Spánverjar með tveimur mörkum, 10:8. Spánverjar juku forskot sitt í þrjú mörk þegar fimm mínútur voru eftir fyrri hálfleik í 14:11 en íslenska liðið neitaði að gefast upp og var munurinn á liðunum eitt mark þegar mínúta var eftir af fyrri hálfleik. Spánverjar skoruðu hins vegar síðasta mark fyrri hálfleiks og staðan 15:13 í hálfleik, Spánverjum í vil.

Íslenska liðið byrjaði seinni hálfleikinn af gríðarlegum krafti og tókst að jafna metin í 18:18 eftir 38. mínútna leik. Liðin skiptust á að skora eftir þetta og Spánverjar leiddu með einu marki eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik. Þá kom frábær leikkafli hjá íslenska liðinu sem tókst að jafna metin í 21:21. Karen Knútsdóttir skoraði þá tvö mörk í röð og kom íslenska liðinu yfir, 23:21, þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Spánverjar voru fljótir að jafna metin á nýjan leik og þeir komust yfir, 26:25 þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Íslenska liðinu tókst að jafna metin á nýjan leik og var staðan 28:28 þegar fimm mínútur voru til leiksloka.

Sigríður Hauksdóttir kom íslenska liðinu einu marki yfir þegar rúm mínúta var til leiksloka úr hægra horninu, 31:30 og Spánverjar tveimur mönnum færri. Þórey Rósa Stefánsdóttir kom íslenska liðinu tveimur mörkum yfir þegar nokkrar sekúndur voru til leiksloka og Ísland fagnaði sigri.

Sigríður Hauksdóttir fór mikinn í íslenska liðinu og skoraði 7 mörk og Karen Knútsdóttir skoraði 6 mörk. Þá varði Hafdís Renötudóttir 7 skot í marki íslenska liðsins. Þrátt fyrir öflugan sigur fer Ísland ekki á HM og bið íslenska liðsins eftir stórmóti heldur því áfram en liðið spilaði síðast á EM 2012 í Serbíu.

Ísland 32:31 Spánn opna loka
60. mín. Þórey Rósa Stefánsdóttir (Ísland) skoraði mark Þórey Rósa að klára þetta fyrir íslenska liðið!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert