Hefur vantað upp á samkeppnina í landsliðinu

Karen Knútsdóttir átti mjög góðan leik fyrir íslenska liðið í …
Karen Knútsdóttir átti mjög góðan leik fyrir íslenska liðið í kvöld og skoraði 6 mörk. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er hrikalega stolt af liðinu fyrir að ná að rífa sig upp fyrir þennan leik og spila góðar sextíu mínútur,“ sagði Karen Knútdsóttir, fyrirliði íslenska kvennalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 32:31-sigur liðsins gegn Spánverjum í seinni leik liðanna í umspili um laust sæti á HM 2019 sem fram fer í Japan í Laugardalshöll í kvöld. Fyrri leik liðanna í Málaga á Spáni lauk með 35:26-sigri spænska liðsins og Ísland missir því af heimsmeistaramótinu í ár.

„Við höfum ekki oft náð að spila góðan, heilan leik, en við áttum mjög slæmt korter í fyrri leiknum á Spáni þar sem við töpum 13:2 og það reyndist dýrt þegar uppi var staðið og það situr í manni. Við áttum flottar 30. mínútur úti á Spáni og þótt við höfum ekki verið að nýta færin okkar á fyrstu fimmtán mínútunum í kvöld vorum við að spila mjög vel. Við sköpuðum okkur helling af færum og þegar að það er alltaf jákvætt. Við fengum framlag frá fullt af leikmönnum í dag og þetta er leikur sem við getum klárlega byggt á í framtíðinni.“

Karen segir að íslenska liðið geti svo sannarlega byggt á sigrinum í kvöld og að framtíðin sé björt hjá kvennalandsliðinu.

„Framtíðin er björt hjá kvennalandsliðinu. Það er mikið af ungum of flottum stelpum að koma upp og núna þurfum við einfaldlega að halda áfram að æfa vel. Ég tel möguleika okkar í undankeppni EM vera nokkuð góða, við erum í sterkum riðli þar sem við eigum klárlega fína möguleika og við megum ekki gefast upp núna. Sóknarlega hefur verið mikill stígandi í þessu hjá okkur og við erum að fá framlag frá mörgum leikmönnum, eitthvað sem hefur vantað hjá landsliðinu. Það er alvöru samkeppni í landsliðinu þessa stundina og þannig hefur það ekki alltaf verið. Það skilar sér í meiri ákefð á æfingum og í leikina hjá okkur líka.“

Ísland spilaði síðast á stórmóti árið 2012 þegar liðið keppti á EM í Serbíu og biðin er því orðin ansi löng hjá kvennalandsliðinu.

„Biðin er vissulega orðin löng eftir stórmóti og margir leikmenn í liðinu í dag eru ennþá að bíða eftir sínu fyrsta stórmóti. Við þurfum að halda áfram að byggja á því góða sem við höfum verið að gera og minnka það slæma. Við þurfum að draga úr þessum slæmu köflum okkar og læra af þeim mistökum sem við höfum verið að gera í undanförnum leikjum,“ sagði Karen í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert