„Klúðruðum alltof mörgum færum“

Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik.
Guðjón Valur Sigurðsson, fyrirliði íslenska landsliðsins í handknattleik. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðjón Valur Sigurðsson, landsliðsfyrirliði í handknattleik, vissi að Grikkir yrðu erfiðir heim að sækja þegar þjóðirnar áttust við í undankeppni Evrópumótsins í Kozani í kvöld. Ísland slapp með jafntefli, 28:28, en sigur hefði tryggt liðinu sæti á EM.

„Við bjuggumst við hörkuleik og vissum að Norður-Makedónía tapaði hérna. En við gerum kröfu á okkur að spila betur en við gerðum í dag. Við erum sáttir með stig úr því sem komið var en vildum að sjálfsögðu vinna þennan leik,“ sagði Guðjón Valur í viðtali á RÚV eftir leik.

Íslenska liðið var þremur mörkum yfir í hálfleik, 15:12, en náði aldrei takti eftir hlé. Hvað gerðist þar?

„Við klúðruðum alltof mörgum færum. Markmaðurinn þeirra átti frábæran seinni hálfleik og fengum ekki nægilega góð stopp í vörninni. Þannig að þetta var erfitt eftir erfiða byrjun í seinni hálfleik,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson, en Grikkir skoruðu fyrstu fjögur mörkin eftir hlé.

Ísland mætir Tyrklandi í Laugardalshöll á sunnudag og getur þar tryggt sæti sitt í lokakeppni EM sem fram fer í janúar á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert