„Við vorum bara mjög lélegir“

Aron Pálmarsson með skot að marki Grikkja.
Aron Pálmarsson með skot að marki Grikkja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við fórum ekkert fagnandi inn í klefa,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir að Ísland bjargaði jafntefli við Grikkland, 28:28, þegar þjóðirnar mættust í undankeppni EM í Grikklandi í kvöld.

Sigur hefði tryggt íslenska liðinu sæti í lokakeppni EM. Ísland var yfir í hálfleik 15:12 en jafnaði svo í blálokin og náði þannig í stig.

„Við vitum að við erum töluvert betri en þessir gæjar í handbolta og það er ekki eins og við höfum verið á einhverjum erfiðasta útivelli í Evrópu eða eitthvað svoleiðis. Við ætluðum klárlega að ná í þessu tvö stig, en auðvitað er skárra að ná jafntefli en að tapa,“ sagði Aron.

Hvað gerðist þá í þessum leik, og sérstaklega eftir hlé, fyrst íslenska liðið taldi sig töluvert betra?

„Við vorum bara mjög lélegir, komum skelfilegir inn í seinni hálfleikinn. Í vörninni vorum við að tapa mikið einn á einn og sóknin var stirð. Það er eina skýringin, við vorum bara lélegir og tökum þetta alfarið á okkur. Við getum ekki kennt neinum öðrum um en okkur sjálfum,“ sagði Aron.

„Ég get lofað betri leik á sunnudaginn“

Sem áður segir var Ísland með þriggja marka forskot í hálfleik og sigur hefði tryggt sætið á EM. Ísland vann fyrri leik þjóðanna hér heima með 14 marka mun. Var hausinn kominn fram úr mönnum í hálfleik?

„Nei, það held ég ekki. Við ætluðum klárlega að koma út í seinni hálfleikinn og kaffæra þeim eins og í fyrri leiknum. En því miður þá byrjuðum við seinni hálfleikinn mjög illa og þeir spiluðu góða sókn gegn okkur, unnu okkur einn á einn og við áttum í erfiðleikum með að stoppa þá. Því miður,“ sagði Aron.

Ísland mætir Tyrkjum í síðasta leik riðilsins í Laugardalshöll á sunnudag. Ísland er með sex stig en Tyrkir fjögur og því eiga Tyrkir enn möguleika á því að komast upp fyrir Ísland og komast á EM. Það gæti því orðið snúið verkefni, þó Ísland hafi unnið fyrri leikinn úti með ellefu marka mun.

„Við unnum Tyrki sannfærandi úti, en unnum Grikki líka sannfærandi heima og gerðum svo jafntefli við þá hér. Við vorum að skila af okkur lélegum leik og þurfum því að mæta miklu klárari og einbeittari í þann leik. Við ætlum okkur ekkert annað en sigur í Höllinni, vonumst náttúrulega eftir fullri höll og þjóðhátíðarstemningu sem er yfirleitt. Ég get lofað betri leik á sunnudaginn,“ sagði Aron Pálmarsson einbeittri röddu við mbl.is.

mbl.is