„Þetta eru ekki lélegir handboltamenn“

Arnór Þór Gunnarsson stekkur inn að marki Grikkja.
Arnór Þór Gunnarsson stekkur inn að marki Grikkja. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er ekki oft sem við töpum á Íslandi og við viljum líka bara klára tímabilið með sigri. Það skiptir miklu máli,“ sagði Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, í samtali við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í Laugardalshöll síðdegis í dag.

Ísland mætir Tyrklandi í lokaleik sínum í undankeppni Evrópumótsins á morgun, sunnudag, klukkan 16 í Laugardalshöll. Ísland marði jafntefli við Grikkland á útivelli á miðvikudag og er ekki öruggt með sæti á EM, en má engu að síður tapa með tíu mörkum á morgun og samt komast áfram eftir að hafa unnið Tyrki með ellefu mörkum úti fyrr í vetur. Arnór segir engan hugsa um það, markmiðið sé fyrst og fremst að vinna leikinn.

„Ég held að þetta verði hörkuleikur. Það verður erfitt að hrista þá af sér, held ég. Þeir spiluðu við Norður-Makedóníu í síðasta leik og töpuðu með einu. Þetta eru ekki lélegir handboltamenn, eru með markmann sem hefur spilað í þýsku Bundesligunni. Svo þetta eru engir aukvisar í handbolta þó þeir séu ekki stærstir á pappírum,“ sagði Arnór.

Arnór Þór Gunnarsson þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn í Laugardalshöll.
Arnór Þór Gunnarsson þakkar áhorfendum fyrir stuðninginn í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Langt ferðalag sem tók aðeins í

Íslenska liðið kom til landsins seinni partinn í gær, fimmtudag, en leikurinn gegn Grikkjum var leikinn í norðurhluta landsins og við tók langt ferðalag heim sem sat aðeins í mönnum.

„Það tók aðeins í, ég viðurkenni það. Við vöknuðum fjögur um nóttina og vorum komnir hingað um fjögur að íslenskum tíma. Þetta var því ágætt ferðalag. Leikurinn var seint um kvöldið í Grikklandi og maður var ekki farinn að sofa fyrr en um klukkan eitt,“ sagði Arnór, en íslenska liðið var nokkuð gagnrýnt eftir leikinn úti.

„Stemningin inni í klefa var ekkert frábær, en þetta stig er mjög mikilvægt. Við spiluðum góða vörn á köflum, en einnig ekki góða vörn á köflum. Þá voru þeir að komast of auðveldlega í gegn og fá góð dauðafæri. Það komu líka kaflar sem voru ekkert frábærir í sókninni, en þá klúðruðum við dauðafæri gegn markmanninum,“ sagði Arnór, en bjóst þó ekki við því að liðið þyrfti að leggja sérstakar áherslur á skotæfingar fyrir leikinn á morgun.

„Það þarf bara alltaf að einbeita sér að næsta skoti. Hvort það hjálpi eitthvað að taka einhverjar skotæfingar hérna veit ég ekki, en maður þarf bara að vera einbeittur í hvert sinn sem maður skýtur á markið og sjá hvað gerist,“ sagði Arnór, sem sjálfur skoraði níu mörk gegn Grikkjum og var markahæstur.

Af hverju ekki að kíkja í Höllina?

Ekki er uppselt á leikinn á sunnudag, en forsvarsmenn HSÍ segja að yfirleitt mæti landsmenn beint í Höllina og minna er selt í forsölu. Arnór vonast að sjálfsögðu eftir góðum stuðningi.

„Já, klárlega. Leikurinn er 16. júní, frí daginn eftir og af hverju ekki að kíkja í Laugardalshöllina og horfa á smá handbolta í fjölskyldustemningu?“ sagði Arnór Þór Gunnarsson, landsliðsmaður í handknattleik, við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert