50 tíma ferðalag og kvörtun til EHF

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands
Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands mbl.is/Hari

Evrópska handknattleikssambandinu, EHF, barst kvörtun frá Handknattleikssambandi Íslands vegna þess hvar landsleikur Íslands og Grikklands var spilaður í undankeppni EM. Landsliðið ferðaðist í 50 klukkutíma fyrir þennan leik.

Ísland marði jafntefli við Grikkland í leiknum á miðvikudag, 28:28, en leikið var í Kozani sem er nyrst í Grikklandi. Ekki bætti úr skák að flug íslenska liðsins út á mánudag var fellt niður og þurfti liðið að gera ráðstafanir, meðal annars dvelja í Þýskalandi yfir nótt, og var því ekki komið á staðinn fyrr en um sólarhring fyrir leik á miðvikudag.

Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari sagði við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í gær að þetta hefði tekið mikla orku frá liðinu. Ferðalagið út hefði tekið 36 tíma og heimferðin aftur á fimmtudag um 15 tíma. Leikurinn var klukkan 20 að staðartíma á miðvikudag og náði liðið litlum svefni þar sem leggja þurfti af stað klukkan fjögur um nóttina.

Kvörtun til EHF skilaði engu

„50 tímar fyrir þennan eina leik er helvíti erfitt,“ sagði Guðmundur og að kvartað hefði verið til EHF vegna málsins en fátt orðið um svör.

„Þetta er því miður bara svona, menn virðast mega fara með leikina hvert sem þeir vilja. Við gerðum athugasemdir við þetta. Þetta var í Norður-Grikklandi, það var erfitt að komast þangað, erfitt tengiflug og allt erfitt við þetta. Við þurftum að keyra í tvo og hálfan tíma að auki, bara aksturinn einn og sér fram og til baka er liggur við eins og allt flugið heim,“ sagði Guðmundur, en vildi annars ekki dvelja of mikið við þessa erfiðleika.

„Við þurfum auðvitað að horfa á okkur, en það var eitt og annað erfitt. Við þurfum að laga fullt sjálfir og megum ekki dvelja of mikið við þetta. Við verðum að horfa á okkur sjálfa í þessu. Það var stórkostlegt að ná þessu stigi en við þurfum að láta verkin tala hérna á sunnudaginn,“ sagði Guðmundur, en Ísland mætir Tyrkjum í lokaleiknum í Laugardalshöll á morgun, sunnudag, klukkan 16.

Guðmundur Þórður Guðmundsson.
Guðmundur Þórður Guðmundsson. AFP

Ekki mögulegt að fá inn aðra skyttu

Ómar Ingi Magnússon verður ekki með í leiknum, en hann fékk höfuðhögg á dögunum og sagði Guðmundur að engin áhætta yrði tekin með hann. Hins vegar væri ekki möguleiki að fá inn aðra örvhenta skyttu í hans stað og því verður Teitur Örn Einarsson aftur eini leikmaðurinn í þeirri stöðu á skýrslu gegn Tyrkjum. Það spili inn í að aðrir leikmenn í þessari stöðu eru meiddir eða hafa ekki spilað lengi vegna þess að nokkuð er um liðið síðan tímabili þeirra með félagsliðum lauk.

„Það hefði verið betra, en svona er hópurinn í dag og það þýðir ekki að velta sér upp úr því. Þeir sem stóðu okkur til boða voru annaðhvort meiddir eða ekki klárir,“ sagði Guðmundur og gaf í skyn að hann myndi breyta íslenska skipulaginu nokkuð í leiknum gegn Tyrkjum frá því sem var gegn Grikkjum. Ekki var þó komið á hreint hvort breytingar yrðu gerðar á 16 manna leikmannahópnum sem verður á skýrslu.

„Við verðum örugglega með einhverjar áherslubreytingar. Það er ýmislegt sem við getum gert betur, það er alveg ljóst, og ég ætla ekki að leyna því. Við erum opnir fyrir öllu, skoðum frammistöðuna á æfingum fram að leiknum og svo þurfum við bara að meta stöðuna,“ sagði Guðmundur Þ. Guðmundsson við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert