Maður í heimsklassa á undan mér í röðinni

Bjarki Már Elísson átti frábæran leik í Höllinni í kvöld …
Bjarki Már Elísson átti frábæran leik í Höllinni í kvöld og skoraði 11 mörk. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta var virkilega ánægjulegt hérna í dag og sigurinn var sanngjarn,“ sagði Bjarki Már Elísson, hornamaður íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 32:22-sigur liðsins gegn Tyrklandi í undankeppni EM í Laugardalshöll í dag en Bjarki Már var magnaður í íslenska liðinu í dag og skoraði 11 mörk í síðari hálfleik.

„Ég vissi að ég myndi byrja seinni hálfleikinn og ég bað plötusnúðinn í Höllinni um að setja nýjar sumarlagið með kingó veðurguð og Gumma Tóta í gang og það kveikti vel í mér. Á móti svona liðum fær maður oft mörg auðveld mörg og ég sagði við Viktor Gísla í hálfleik að senda alltaf fram á mig því þar myndi ég vera. Hann átti allavega sex stoðsendingar á mig og það hjálpar mikið á móti svona liðum að ná að skilja þau eftir.“

Íslenska liðið lýkur keppni í 2. sæti 3. riðils með 8 stig og Bjarki viðurkennir að gengi liðsins hafi verið upp og ofan í undankeppninni.

„Mér finnst þessi undankeppni hjá okkur hafa verið upp og niður. Við áttum tvo mjög góða leiki í byrjun undankeppninnar, leikurinn heima á móti Norður-Makedóníu var ekkert sérstakur en leikurinn úti betri. Svo kom þessi Grikkaleikjur sem var slakur en leikurinn í kvöld var fínn. Það hefur kannski verið smá óstöðugleiki í gangi hjá okkur sem við þurfum að skoða og svo þurfum við að fá vörnina okkar oftar í gang því þegar hún hrekkur í gang þá er hún gríðarlega öflug.“

Bjarki Már er á eftir landsliðsfyrirliðanum Guðjóni Val Sgurðssyni í goggunarröðinni eins og staðan er í dag en hornamaðurinn er ekki að svekkja sig á því hver byrjar leikina heldur er hann þakklátur fyrir þau tækifæri sem hann fær.

„Það er bara þannig að þegar það er heimsklassaleikmaður á undan manni í röðinni þá er maður lengur að fá tækifæri og ég er alls ekki að svekkja mig á því. Ég er fyrst og fremst sáttur að vera í landsliðinu, mér finnst það gaman og það er gaman að taka þátt í þessum verkefnum. Það vilja allir leikmenn spila og ég mun bara halda áfram að nýta þau tækifæri sem ég fæ,“ sagði Bjarki Már í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert