Ómar Ingi semur við Magdeburg

Ómar Ingi Magnússon.
Ómar Ingi Magnússon. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik, hefur skrifað undir fjögurra ára samning við þýska félagið Magdeburg. Hann gengur í raðir félagsins frá danska meistaraliðinu Aalborg næsta sumar.

Ómar Ingi er 22 ára gamall og var í lykilhlutverki í danska meistaraliðinu í vetur og var meðal annars valinn í lið ársins. Ómar Ingi var langefst­ur í stoðsend­ing­um allra leik­manna deild­ar­inn­ar. Í 26 leikj­um gaf hann 112 stoðsend­ing­ar, en sá sem kom næst­ur gaf 88 stoðsend­ing­ar. Þá var Ómar Ingi marka­hæsti leikmaður Aal­borg með 129 mörk í deildinni.

Ómar Ingi kom til Aalborg fyrir þetta tímabil, en hann lék áður í tvö ár með Aarhus. Hann fór út í atvinnumennsku árið 2016 eftir að hafa leikið með Val og uppeldisfélaginu Selfossi hér á landi.

Magdeburg er stórveldi í þýskum handbolta en liðið hafnaði í þriðja sæti í Bundesligunni á síðasta tímabili.

„Við erum mjög stoltir að Ómar Ingi hafi ákveðið að koma til Magdeburg og skuldbinda sig til langs tíma. Hann er ein efnilegasta hægri skytta Evrópu með mikla alþjóðlega reynslu og mun án efa hjálpa okkur að ná framtíðarmarkmiðum liðsins,“ segir Bennet Wiegert, þjálfari Magdeburg, á heimasíðu félagsins.

„Ég hlakka til að koma til Magdeburg. Þegar ég heimsótti félagið fékk ég góða tilfinningu fyrir félaginu og borginni og held að ég passi vel inn í hugmyndafræði liðsins,“ er haft eftir Ómari Inga.

Ómar Ingi Magnússon með treyju Magdeburg.
Ómar Ingi Magnússon með treyju Magdeburg. Ljósmynd/Magdeburg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert