Þolinmæði EHF er á þrotum

Haukur Þrastarson og Íslandsmeistarar Selfoss ætluðu að spila á heimavelli …
Haukur Þrastarson og Íslandsmeistarar Selfoss ætluðu að spila á heimavelli Hauka, en ekkert íþróttahús á Íslandi uppfyllir kröfur EHF. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenska handknattleikshreyfingin fékk í gær skýr skilaboð frá EHF, evrópska handknattleikssambandinu, þegar umsókn Íslandsmeistara Selfoss um að taka þátt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð var hafnað.

Í fyrstu bárust þau svör frá EHF að umsókn Selfyssinga hefði verið hafnað þar sem félagið uppfyllti ekki lágmarkskröfur til þátttöku. HSÍ, fyrir hönd Selfoss, krafðist þá frekari rökstuðnings þar sem Selfyssingar sögðust hafa farið vel yfir reglubákn EHF og talið sig standast öll tiltekin skilyrði.

Þegar svör bárust svo frá EHF seinni partinn í gær kom í ljós að umsókninni hefði verið hafnað af þeirri einföldu ástæðu að ekkert íþróttahús hér á landi sem væri skráð hjá sambandinu uppfyllti kröfur um lágmarksfjölda áhorfenda.

Heimavöllur Selfyssinga tekur um 800 áhorfendur og því var vitað að húsið uppfyllti ekki kröfur. Í umsókn Selfoss var því skráð að heimaleikir liðsins yrðu spilaðir á Ásvöllum, heimavelli Hauka, þar sem Evrópuleikir hafa margoft farið fram. Þar er aðstaða fyrir 2.300 áhorfendur, en EHF miðar við að lágmarki 2.500 áhorfendur í Meistaradeild. Ekki verður horfið frá því.

Það mátti ráða í orð Guðmundar B. Ólafssonar, formanns HSÍ, í samtali við mbl.is eftir að rökstuðningur EHF barst seinni partinn í gær að þolinmæði EHF gagnvart aðstöðuleysi á Íslandi væri á þrotum. Laugardalshöllin, keppnisvöllur landsliðsins, hefur lengi verið á undanþágu sem er í raun ótímabær. Þrátt fyrir að hafa sloppið hingað til benda svör EHF til þess að við það verði ekki unað endalaust.

Sjá umfjöllun um mál þetta í heild á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert