Geir ekki verið ráðinn – „Þessi frétt er bara röng“

Geir Sveinsson á hliðarlínunni sem þjálfari Akureyrar.
Geir Sveinsson á hliðarlínunni sem þjálfari Akureyrar. mbl.is/Hari

„Þessi frétt er bara röng,“ segir Geir Sveinsson, fyrrum landsliðsþjálfari í handknattleik, við mbl.is um þá tilkynningu sem birtist á heimasíðu Þórs að hann hefði verið ráðinn þjálfari liðsins sem áður spilaði undir nafni Akureyrar og féll úr efstu deild í vor.

Eins og mbl.is greindi frá í gærkvöldi, og vitnaði í heimasíðu Þórs, kom fram að Geir hefði verið ráðinn þjálfari liðsins ásamt Halldóri Erni Tryggvasyni. Geir tók við Akureyrarliðinu á miðju tímabili í efstu deild í fyrra en náði ekki að bjarga liðinu frá falli. Í tilkynningu frá Þórsurum í gærkvöldi sagði að það væru ánægjuleg tíðindi að halda Geir áfram sem þjálfara.

Geir segir hins vegar að ekkert sé frágengið, hann sé búsettur í Þýskalandi og sé ekki að fara að flytja til Íslands.

„Ég er ekki að fara að verða þjálfari liðsins í þeirri mynd sem fyrirsögnin og allt segir til um. Ég mun hins vegar aðstoða Halldór eftir bestu getu, vera hans ráðgjafi,“ segir Geir. Hugsanlega komi hann einnig nokkrum sinnum norður næsta vetur. Tilkynningin frá Þórsurum sé hins vegar kolröng.

„Það er ekkert frágengið og það verður bara að bíða eftir því að gengið sé frá endanlegri útfærslu,“ segir Geir Sveinsson við mbl.is.

Sjá frétt mbl.is frá því í gærkvöldi:

mbl.is