Hreiðar spilar með Val á næstu leiktíð

Hreiðar Levý Guðmundsson.
Hreiðar Levý Guðmundsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Handknattleiksmarkvörðurinn Hreiðar Levý Guðmundsson mun leika með Val í Olís-deildinni á næstu leiktíð en hann féll með liði Gróttu úr deildinni á síðustu leiktíð.

Hreiðari er ætlað fylla skarð Einars Baldvins Baldvinssonar sem Íslandsmeistarar Selfyssinga hafa fengið að láni frá Val. Koma Hreiðars til Vals er hluti af fléttu félaganna en Hreiðar gerði samning við Selfoss en hefur nú verið lánaður til Vals og spilar með liðinu á komandi tímabili.

„Það er búið að ganga frá því að ég spila með Val næsta vetur. Ég gerði samning við Selfoss sem svo lánaði mig til Vals sem á móti fær Einar Baldvin að láni frá Val. Ég er svo sem ekki alveg inni í þessari fléttu en ég er alla vega kominn í Val,“ sagði Hreiðar Levý í samtali við mbl.is en þessi reynslubolti hefur spilað með Gróttu undanfarin tvö ár.

„Ég er bara mjög spenntur fyrir þessu og að taka enn eitt tímabilið. Það verður gaman að berjast á öðrum enda en ég hef gert síðustu tvö tímabil. Það verður samkeppni og samvinna hjá okkur Danna sem verður gaman að takast á við. Ég veit að Valur stefnir á að vinna titla og það er gaman að vera í þannig umhverfi,“ sagði Hreiðar Levý .

Hreiðar Levý er 38 ára gamall og á að baki 146 leiki með íslenska landsliðinu. Hann var í landsliðshópnum sem vann silfurverðlaunin á Ólympíuleikunum í Peking 2008 og bronsverðlaunin á Evrópumótinu í Austurríki 2010.

mbl.is