Súrt að þurfa að taka þessa ákvörðun

Sveinbjörn Pétursson.
Sveinbjörn Pétursson. mbl.is/Golli

Sveinbjörn Pétursson sem hefur varið mark Stjörnunnar undanfarin þrjú ár hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna.

„Jú það passar. Ég hef ákveðið að hætta. Ég lenti í bílslysi í fyrravetur þar sem bíllinn fór eina og hálfa veltu og ég hef glímt við meiðsli í bakinu síðan þá. Ég verið með stanslausa verki og það er lítið gaman að stunda handboltann þegar svo háttir til. Þessi meiðsli hafa háð mér og eins og staðan er í dag sé ég ekki fram á að ná neinum bata að ráði. Ég er nálægt því fá brjósklos og svo er ég með klemmdar taugar líka.

Þetta var ekki alveg samkvæmt áætlum hjá manni að hætta á þessum tímapunkti og það er súrt að þurfa að taka þessa ákvörðun. Ég reyndi að harka af mér á síðasta tímabili en nú get ég ekki meira. Þetta er staðan í dag en maður veit ekki hver staðan verður eftir eitt, tvö eða þrjú ár og hvort ég eigi endurkomu aftur,“ sagði Sveinbjörn við mbl.is.

Sveinbjörn er 30 ára gamall, uppalinn Þórsari og lék með HK og Akureyri og þá lék hann með þýska liðinu Aue undir stjórn Rúnars Sigtryggssonar. þjálfara Stjörnunnar, frá 2012-16 áður en hann gekk í raðir Stjörnunnar. Hann á 11 leiki að baki með íslenska A-landsliðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert