Gunnar í Stjörnuna - Bjarki samdi

Gunnar Valdimar Johnsen í leik með Akureyri gegn KA síðasta …
Gunnar Valdimar Johnsen í leik með Akureyri gegn KA síðasta vetur. Hann er kominn aftur í Stjörnuna. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Handknattleikslið Stjörnunnar hefur endurheimt Gunnar Valdimar Johnsen og varnarmaðurinn reyndi Bjarki Már Gunnarsson er meðal þeirra sem hafa samið að nýju við Garðabæjarfélagið.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Stjarnan sendi frá sér fyrir stundu.

Gunnar, sem er skytta eða leikstjórnandi, var í láni hjá Akureyri á síðasta tímabili og skoraði þar 50 mörk í 22 leikjum í úrvalsdeildinni. Hann var áður í láni hjá Gróttu en er uppalinn Stjörnumaður.

Bjarki Már, sem er reyndur atvinnumaður og landsliðsmaður, gerði nýjan samning eins og þeir Ari Magnús Þorgeirsson, Hjálmtýr Alfreðsson, Birgir Steinn Jónsson og Starri Friðriksson. Þeir Ari og Starri misstu báðir talsvert úr á síðasta tímabili vegna meiðsla.

Þá hefur Stjarnan fengið til liðs við sig Andra Þór Helgason frá Fram, eins og fram kom á mbl.is í gær.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert