Stýrir Finnum og þjálfar í Egyptalandi

Ola Lindgren og aðstoðarþjálfarinn Robert Arrhenius með treyju Al Ahly.
Ola Lindgren og aðstoðarþjálfarinn Robert Arrhenius með treyju Al Ahly. Ljósmynd/Al Ahly

Svíinn Ola Lindgren, sem ráðinn var landsliðsþjálfari Finna í handknattleik á dögunum, mun ekki aðeins einbeita sér að því en hann hefur einnig verið kynntur til leiks sem nýr þjálfari egypska félagsliðsins Al Ahly og skrifað þar undir eins árs samning.

Lindgren lét óvænt af störfum hjá Íslendingaliðinu Kristianstad í janúar eftir sjö ára veru, en á þeim tíma varð liðið meðal annars sænskur meistari fjórum sinnum. Hann stýrði einnig sænska landsliðinu á árunum 2008-2016 og vann silfur á Ólympíuleikunum í London árið 2012. Áður stýrði hann meðal annars þýska stórliðinu Rhein-Neckar Löwen og sem leikmaður var hann hluti af afar sigursælu landsliði Svía rétt fyrir aldamót.

Lindgren mun nú flytjast búferlum til Kaíró þar sem honum er ætlað sem þjálfari að leiða enn frekar framþróun handboltans hjá Al Ahly. Um er að ræða sigursælasta félag Egyptalands sem nú er ríkjandi bikarmeistari og hefur unnið meistaratitilinn 23 sinnum, en Al Ahly hefur verið í sérflokki þar í landi ásamt ríkjandi meisturum Zamalek.

Lindgren sagðist við undirskriftina hlakka til að innleiða skandinavíska handboltahugsun hjá félaginu með því að byggja á sterkum varnarleik og hraðaupphlaupum.

Egyptar hafa lengi verið ein sterkasta handboltaþjóð Afríku og sjö leikmenn Al Ahly voru í landsliðinu á heimsmeistaramótinu í janúar þar sem Egyptar spiluðu um sjöunda sætið. Þá eru Egyptar gestgjafar næsta heimsmeistaramóts árið 2021. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »