Íslandsmeistarinn lenti á vegg

Haukur Þrastarson brann yfir í vetur og þarf á hvíld …
Haukur Þrastarson brann yfir í vetur og þarf á hvíld að halda. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þegar allt kom til alls þá þurfti ég að hugsa um heilsuna og sjálfan mig,“ sagði Haukur Þrastarson í samtali við mbl.is í dag en hann ákvað að gefa ekki kost á sér í U21 árs landslið karla í handknattleik sem tekur þátt í úrslitakeppni HM sem fram fer á Spáni dagana 16.-28. júlí.

„Í fyrsta lagi er ég er búinn að vera undir miklu álagi að undanförnu og ég lenti á ákveðnum vegg í vetur. Það var mikið álag á mér síðasta sumar og ég fann fyrir því í vetur. Ég hálfpartinn brann yfir og ég er bara búinn að vera í ákveðnu basli með sjálfan mig ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Í öðru lagi þá þarf ég smá frí frá handboltanum til þess að jafna mig og byggja mig upp á nýjan leik. Ég vil alltaf spila og ég hefði mjög svo verið til í taka þátt í þessu móti en stundum verður maður bara að hugsa um sjálfan sig líka.“

Haukur er einungis 18 ára gamall og útilokar ekki að taka þátt með U19 ára landsliðinu sem tekur þátt í úrslitakeppni HM sem fram fer í Norður-Makedóníu í ágúst en hann segist hafa útskýrt ákvörðun sína fyrir landsliðsþjálfara U21 árs landsliðsins.

„Þetta er ekki minn aldurflokkur og það er annað stórmót hjá U19 ára landsliðinu í sumar sem er minn aldurflokkur. Það kemur vel til greina að taka þátt í því móti því ég vil alltaf spila fyrir yngri landsliðin og það hefur aldrei verið neitt vandamál hjá mér áður. Ég var mjög hreinskilinn við Einar Andra, þjálfara liðsins, og sagði honum einfaldlega að ég þyrfti ákveðinn tíma til þess að vinna í sjálfum mér.“

Haukur hefur verið sterklega orðaður við lið í atvinnumennsku eftir frábært tímabil með Selfyssingum þar sem hann varð Íslandsmeistari í vor en hann á von á því að spila áfram með Selfossi á næstu leiktíð.

„Það eru einhverjar viðræður í gangi og þetta er í vinnslu. Það eru allar líkur á því að ég spili með Selfossi á næstu leiktíð og fari svo út í atvinnumennsku eftir næsta sumar. Það eru nokkrir möguleikar í stöðinni fyrir mig en ég mun skoða mín mál í rólegheitunum með umboðsmanni mínum á næstu vikum,“ sagði Haukur í samtali við mbl.is.

mbl.is