Þetta var sameiginleg ákvörðun

Teitur Örn Einarsson í leik með A-landsliðinu gegn Tyrkjum í …
Teitur Örn Einarsson í leik með A-landsliðinu gegn Tyrkjum í Laugardalshöllinni í síðasta mánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það vakti athygli þegar U21 árs landsliðshópurinn í handknattleik, sem er á leið á heimsmeistaramótið á Spáni, var opinberaður í gær að tveir af bestu mönnum liðsins, Teitur Örn Einarsson og Haukur Þrastarson, gáfu ekki á sér í verkefnið.

Haukur greindi frá sinni stöðu varðandi málið í viðtali við mbl.is í gær en mbl.is náði tali af Teiti í dag en hann leikur með sænska úrvalsdeildarliðinu Kristianstad.

„Það er búinn að vera smá barningur í allt sumar á milli HSÍ og Kristianstad, sem ég er að spila með. Kristianstad vildi ekki að ég færi á mótið þar sem undirbúningstímabilið hefst á sama tíma hjá félaginu. Ég var alveg tilbúinn að vera með en þar sem ég tognaði í kálfanum og missti úr einn mánuð undir lok síðasta tímabil þá vildi félagið ekki að ég færi. Kristianstad vildi ekki hleypa mér í A-landsliðsverkefnið í sumar en lét undan að lokum,“ sagði Teitur Örn við mbl.is.

„Ég veit að Róbert hjá HSÍ hafði samband við Kristianstad en það var aldrei talað við Vranjes þjálfara, hvorki hann né Einar Andri þjálfari. Í miðju fríi þurfti ég að hafa samband við Vranjes og spyrja hann hvað ég ætti að gera því ég var hálf týndur. Kristianstad getur ekki hindrað mig frá því að fara á stórmót en það var sameiginleg ákvörðun mín og félagsins að fara ekki á mótið.

Mér telst til að ég hafi spilað 70 handboltaleiki á síðasta tímabili og það væri ekki gott að bæta við einhverjum tíum leikjum við á tveimur vikum,“ sagði Selfyssingurinn, sem hefur hefur spilað tvö tímabil með sænska liðinu og hefur fest sig í sessi með A-landsliðinu.

mbl.is