Verður enginn ríkur í kvennahandbolta

Eva Björk Davíðsdóttir á æfingu íslenska kvennalandsliðsins síðasta haust.
Eva Björk Davíðsdóttir á æfingu íslenska kvennalandsliðsins síðasta haust. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Ég er mjög spennt að prófa eitthvað alveg nýtt. Ég er búinn að vera í Danmörku undanfarin tvö ár og ég hlakka til að komast í aðeins öðruvísi umhverfi. Ajax hefur verið að berjast í neðri hluta deildarinnar í Danmörku á meðan Skuru hefur verið að berjast við toppinn í Svíþjóð þannig að þetta er bara mjög spennandi verkefni,“ sagði handknattleikskonan Eva Björk Davíðsdóttir í samtali við mbl.is í dag.

Eva sem er 25 ára gömul skrifaði undir eins árs samning við sænska úrvalsdeildarfélagið Skuru í gær en liðið sem er frá úthverfi Stokkhólms varð sænskur deildarmeistari á síðustu leiktíð og endaði í öðru sæti í baráttunni um sænska meistaratitilinn.

„Kvennahandboltinn í Svíþjóð er á ákveðinni uppleið og hefur verið mikill leikmannagangur á milli liða í Svíþjóð og Danmörku á undanförnum árum. Handboltinn þarna er svipaður og í Danmörku en að sama skapi er ég aðeins að renna blint í sjóinn líka þannig að ég er bara spennt að prófa og upplifa eitthvað alveg nýtt. Þetta hefur legið í loftinu í smá tíma og þetta hefur tekið kannski lengri tíma en ella þar sem að þetta dróst aðeins inn í sumarið og fólk hefur verið komið í sumarfrí og annað slíkt. Ég er mjög ánægð að það sé loksins búið að klára þetta því ég tel að þetta sé mjög gott skref fyrir mig á þessum tímapunkti á ferlinum.“

Eva Björk gekk til liðs við danska úrvalsdeildarfélagið Ajax frá …
Eva Björk gekk til liðs við danska úrvalsdeildarfélagið Ajax frá Kaupmannahöfn í júlí 2017. Ljósmynd/Ajax

Skandinavía skrefi á undan

Eva hefur verið í atvinnuennsku frá árinu 2016 þegar hún samdi við norska úrvalsdeildarfélagið Sola þar sem hún spilaði í eitt ár. Hún gekk til liðs við danska úrvalsdeildarfélagið Ajax frá Kaupmannahöfn sumarið 2017 en er nú kominn til Svíþjóðar en hún segist ekki vera byrjuð að hugsa um næsta áfangastað að svo stöddu.

„Auðvitað er maður allt með markmið í gangi en ég hef ekki sett mér nein markmið tengt því að spila í einhverju ákveðnu landi eða liði. Maður þarf að skoða hvert tækifæri fyrir sig, þegar að þau koma, og það er erfitt að vera plana eitthvað of langt fram í tímann í þessum handboltaheimi. Það er hins vegar mjög gaman að hafa prófað að spila á þeim stöðum þar sem maður hefur verið og auðvitað ennþá skemmtilegra að fá tækifæri til þess að vera áfram úti og spila í þessum gæðaflokki.

Það er ákveðinn munur, bara á milli dönsku-, norsku- og sænsku deildarinnar. Danska deildin hefur verið mjög sterk í gegnum tíðina og bestu liðin þar hafa á að skipa mörgum af bestu leikmönnum heims í dag. Svíþjóð og Noregur koma þar á eftir en ef við miðum þetta við íslensku deildina þá væro toppliðin heima kannski að berjast í neðri hluta deildanna úti. Deildirnar úti eru kannski einu skrefi ofar en það er erfitt að festa hendi á þetta enda mikill getumunur á liðinum sem spila í deildunum í Skandinavíu og eins hefur deildin heima breyst mikið frá því að ég spilaði í henni 2016.“

Eva Björk Davíðsdóttir á ellefu landsleiki að baki fyrir Íslands …
Eva Björk Davíðsdóttir á ellefu landsleiki að baki fyrir Íslands hönd. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atvinnumennskan draumurinn

Íslenska kvennalandsliðið hefur ekki riðið feitum hesti frá árinu 2012 þegar liðið fór síðast á stórmót. Arna Sif Pálsdóttir, línumaður landsliðsins, hvatti á dögunum unga íslenska leikmenn til þess að reyna fyrir sér á erlendri grundu og Eva Björk tekur heilshugar undir með liðsfélaga sínum í landsliðinu.

„Það hefur alltaf verið draumur hjá mér að fara út og spila sem atvinnumaður í þessum gæðaflokki. Það er mikilvægt fyrir leikmenn, sem vilja taka næsta skref á ferli sínum, að spila erlendis því þetta er allt annað gæðaflokkur en heima. Að sama skapi er atvinnumennskan ekki alltaf dans á rósum, ekkert endilega bara í handboltanum, og maður hefur heyrt slæmar sögur hér og þar en það þarf ekki endilega að vera eitthvað slæmt. Þetta fer allt í reynslubankann, maður lærir af erfiðum upplifunum, og verður reynslunni ríkari fyrir vikið.

Þetta er ekki bara gott skref fyrir leikmennina sjálfa sem vilja ná langt í íþróttinni heldur líka fyrir íslenska kvennalandsliðið því þú ert ekki bara að spila í hærri gæðaflokki heldur ertu líka að æfa í hæsta gæðaflokki þar sem kröfurnar eru mun meiri heldur en heima. Þetta hefur verið frábær reynsla fyrir mig persónulega og það er ástæðan fyrir því að ég ákvað að vera áfram úti eftir að samningur minn við Ajax rann út því ég vil halda áfram að bæta mig sem leikmaður.“

Eva Björk Davíðsdóttir lék með Gróttu áður en hún hélt …
Eva Björk Davíðsdóttir lék með Gróttu áður en hún hélt út í atvinnumennsku árið 2016. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nóg að geta lifað á handboltanum

Mikið hefur verið rætt og ritað um launin í kvennaíþróttuum að undanförnu en Eva ítrekar að á meðan hún getur lifað á því að spila handbolta sé hún sátt með sitt.

„Maður hefur heyrt allskonar tölur og um mismunandi samninga en þetta fer bæði eftir liðum og deildum. Þetta er ákvörðun sem hver og einn verður að taka með sjálfum sér en ég held að það geri sér flestir grein fyrir því að þú verður ekki ríkur af því að spila handbolta, jafnvel ekki á hæsta stigi kvennahandboltans, en fyrir mig persónulega þá nægir það mér að geta lifað á þessu. Að fá að vinna við að spila handbolta og tekið næsta skref á þennan hátt nægir mér en það þarf hver og einn að eiga þetta við sjálfan sig. Ef þú ætlar þér að græða einhvern pening á þessu þá er það kannski ekki málið en vonandi, einn daginn, þá verður það þannig í kvennahandboltanum,“ sagði Eva Björk í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert