Yrði gaman að mæta Arendal

Ásbjörn Friðriksson.
Ásbjörn Friðriksson. mbl.is/Hari

Ásbjörn Friðriksson fyrirliði FH-inga og aðstoðarþjálfari liðsins fékk að vita um mótherja FH í 1. umferð EHF-keppninnar þegar mbl.is leitaði viðbragða frá honum um dráttinn í morgun.

Ásbjörn er staddur á Tenerife ásamt fjölskyldu sinni í sumarfríi en mbl.is upplýsti hann um mótherja FH sem verður belgíska liðið Visé BM. Takist FH að slá Belganna út mætir það norska liðinu Arendal í 2. umferðinni.

„Ef ég mann rétt þá lenti FH í basli með belgískt lið í Evrópukeppninni árið 2012 en ég var þá úti að spila. Ég held að belgískur handbolti sé á uppleið eins og í fleiri löndum. Nú þurfum við bara að fara að kynna okkur mótherjana og fá einhverjar upplýsingar um þá. Þegar það er búið getur maður kannski svarað meira um styrk liðsins,“ sagði Ásbjörn í samtali við mbl.is.

„Það yrði svo sannarlega gaman að fara áfram og mæta Arendal sem er eitt af betri liðunum í Noregi. Það yrði gaman að bera sig saman við það. Eigum við ekki að segja að það sé ákveðin gulrót að komast í gegnum Belgana. Það er alltaf frábært að taka þátt í Evrópukeppni. Þetta hristir hópinn saman og það er gaman að mæta liðum sem þú ert ekki alltaf að spila við,“ sagði Ásbjörn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert