Ísland á toppinn eftir sigur á Dönum

Ásgeir Snær Vignisson skoraði þrjú mörk.
Ásgeir Snær Vignisson skoraði þrjú mörk. Ljósmynd/IHF

Ísland er komið í toppsæti D-riðils á heimsmeistaramóti U21 árs landsliða karla í handbolta eftir glæsilegan 25:22-sigur á Danmörku í fjórða leik liðanna í riðlakeppninni í dag. Leikið er á Spáni. 

Danmörk var með fullt hús stiga fyrir leikinn í dag, sex stig, og Ísland með tvo sigra og eitt tap. Íslenska liðið byrjaði af krafti og komst í 8:4 snemma leiks og var staðan í hálfleik 13:9. 

Danir minnkuðu muninn í tvö mörk í upphafi seinni hálfleiks, 13:11. Þá skoraði Ísland sex af næstu níu mörkum og lagði grunninn að góðum sigri. 

Bjarni Ófeigur Valdimarsson var markahæstur í íslenska liðinu með níu mörk og Orri Freyr Þorkelsson skoraði fjögur. Ásgeir Snær Vignisson og Elliði Snær Viðarsson komu þar á eftir með þrjú mörk hvor. Viktor Gísli Hallgrímsson varði 14 skot í markinu. 

Ísland mætir Þýskalandi í lokaleik sínum í riðlinum á mánudaginn kl. 12. 

mbl.is