Hafnaði þýsku efstu deildarliði

Rúnar Sigtryggsson skrifaði undir þriggja ára samning við Stjörnuna í …
Rúnar Sigtryggsson skrifaði undir þriggja ára samning við Stjörnuna í apríl á síðasta ári. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari handknattleiksliðs Stjörnunnar í úrvalsdeild karla, fékk tilboð um að taka við þýska 1. deildarliðinu Nordhorn á dögunum en það er Skapti Hallgrímsson, fyrrverandi blaðamaður á Morgunblaðinu, sem greinir frá þessu.

Heiner Büttmann hætti óvænt með liðið á dögunum og var Rúnari boðið starfið en íslenski þjálfarinn afþakkaði það. Rúnar þekkir vel til í Þýskalandi eftir að hafa þjálfað bæði Aue og Balingen í 2. deildinni þar í landi.

Nordhorn eru nýliðar í þýsku 1. deildinni en Stjarnan endaði í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð og féll úr leik í átta liða úrslitum Íslandsmótsins eftir samanlagt 2:1-tap gegn deildarmeisturum Hauka.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert