„Ég hef aldrei lent í öðru eins“

Tumi Steinn Rúnarsson var sendur heim af mótinu af læknisráði.
Tumi Steinn Rúnarsson var sendur heim af mótinu af læknisráði. Ljósmynd/IFH

„Líkurnar eru einn á móti mörgum milljónum að þetta skuli gerast í sextán manna hópi,“ sagði Heimir Ríkarðsson, þjálfari U19 ára landsliðs karla í handknattleik, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær. Hann var þá nýkominn til landsins með liðinu sem hafnaði í áttunda sæti á heimsmeistaramótinu sem haldið var í Norður-Makedóníu.

Í tveimur leikjum um 5.-8. sæti mótsins um helgina voru aðeins 13 leikmenn á skýrslu hjá íslenska liðinu. Haukur Þrastarson var að glíma við meiðsli í öxl og ákveðið var að taka enga áhættu með hann, en tveir leikmenn fengu botnlangabólgu. Fyrst var það Tumi Steinn Rúnarsson, eftir að hafa farið á kostum gegn tilvonandi heimsmeisturum Egyptalands í átta liða úrslitunum. Hann var sendur heim til Íslands að læknisráði, en þá veiktist markvörðurinn Sigurður Dan Óskarsson líka.

„Ég hef aldrei lent í öðru eins,“ sagði Heimir, en Sigurður þurfti að vera á sjúkrahúsi í eina nótt og það var jafnvel spurning hvort hann þyrfti í aðgerð. Bólgan tók hins vegar að minnka svo ákveðið var að hann kæmi með liðinu heim. Svavar Ingi Sigmundsson var því eini markvörðurinn í hópnum í síðustu tveimur leikjunum gegn Frökkum og Spánverjum sem töpuðust báðir og áttunda sætið því niðurstaðan.

„Við vorum bara tilbúnir með klippta markmannspeysu til að henda einhverjum í rammann ef eitthvað kæmi fyrir hann. Það var upp á lítið að spila um 5.-8. sætið þar sem það hafði ekkert að segja varðandi þátttöku í öðrum mótum eða svoleiðis. Við ætluðum bara að klára þá leiki og mér fannst við gera það bara vel. Leikmenn lögðu sig fram, en það er erfitt að hafa bara einn markmann auk þess sem það vantaði Tuma og Hauk,“ sagði Heimir.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert