Fyrsti titillinn kominn hjá Aroni

Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona með bikarinn í kvöld.
Aron Pálmarsson og félagar í Barcelona með bikarinn í kvöld. Ljósmynd/fcbarcelona.cat

Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, er þegar búinn að vinna sinn fyrsta titil með stórliði Barcelona á tímabilinu sem er að hefjast.

Barcelona spilaði um titilinn meistarar meistaranna í Katalóníu og fór illa með Granollers í úrslitaleik í kvöld, 43:24, eftir að hafa verið yfir í hálfleik 25:15. Aron er sem kunnugt er í öðruvísi hlutverki hjá Börsungum en hjá íslenska landsliðinu og er meira í því að mata liðsfélaga sína með stoðsendingum, en hann skoraði eitt mark í kvöld.

Barcelona hafði áður unnið La Roca í undanúrslitum 46:19 þar sem Aron skoraði sömuleiðis eitt mark.

Barcelona spilar fyrsta leikinn á nýju tímabili í spænsku 1. deildinni þann 6. september, en liðið hefur þar orðið meistari níu ár í röð.

mbl.is