Sá besti í heimi hótar að sniðganga HM

Mikkel Hansen er búinn að fá nóg.
Mikkel Hansen er búinn að fá nóg. AFP

Daninn Mikkel Hansen, sem þrívegis hefur verið kjörinn besti handboltamaður í heimi, hefur hótað að sniðganga HM í Egyptalandi 2021 vegna leikjaálags. Hansen, ásamt fleiri atvinnumönnum, hefur kvartað yfir miklu leikjaálagi hjá handboltamönnum í fremstu röð. 

Hansen fór á kostum með danska liðinu á HM í Þýskalandi og Danmörku í ár og var markahæstur og kjörinn bestur að móti loknu. Hann átti hve stærstan þátt í því að Danir urðu heimsmeistarar. Í kjölfarið var hann kosinn besti leikmaður heims í þriðja skipti af Alþjóðahandknattleikssambandinu. 

Hansen spilar oft meira en 80 leiki á ári, allt árið í kring. Hann leikur á stórmótum með danska landsliðinu í byrjun hvers árs. Þá leikur hann oft tvo leiki í viku með félagsliði sínu PSG. Til skiptis deildarleiki og Evrópuleiki. 

Guðjón Valur Sigurðsson hefur einnig kvartað yfir leikjaálagi.
Guðjón Valur Sigurðsson hefur einnig kvartað yfir leikjaálagi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Guðmundur Guðmundsson, núverandi landsliðsþjálfari Íslands og fyrrverandi landsliðsþjálfari Danmerkur, hlaut mikið hrós fyrir að gefa leikmönnum danska liðsins frí frá æfingum og leikjum á sínum tíma, til að gefa þeim nauðsynlega hvíld. 

Einhvern tíma fær fólk nóg

Þá sendi margt af fremsta handboltafólki heims frá sér myndband fyrr á árinu, þar sem vakin var athygli á því mikla álagi sem fylgir því að vera atvinnumaður í íþróttinni, sérstaklega ef íþróttamennirnir gefa kost á sér í landsliðsverkefni. Guðjón Valur Sigurðsson var einn þeirra sem deildu myndbandinu. 

Guðmundur Þórður Guðmundsson gaf leikmönnum danska landsliðsins frí af og …
Guðmundur Þórður Guðmundsson gaf leikmönnum danska landsliðsins frí af og til. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér finnst erfitt að sætta mig við þetta og sjá þetta óskipulag. Vafalaust eru allir að reyna að gera sitt besta en ræða því miður ekki saman. EHF hugsar um EM og Meistaradeildina og IHF hugsar um HM. Menn vinna ekki saman og maður horfir öfundaraugum til fótboltamanna sem spila deildaleiki um helgar og Meistaradeildarleiki á þriðju- og miðvikudögum.

Ég ber okkur saman við fótboltann einfaldlega út af þeirra skipulagi. Ef við segjum að alþjóðlegur fótbolti sé Meistaradeildin í skipulagi þá er alþjóðlegur handbolti í besta falli 3. eða 4. deild í skipulagi. Ég er ekki að tala um HSÍ heldur handboltann á alþjóðavísu. Að sjálfsögðu á handboltinn að gera þetta eins og fótboltinn og vera með stórmót landsliða í júní og á fjögurra ára fresti. Hægt er að gera hlutina betur og á þann hátt að íþróttin græði á því. Einhvern tíma fær fólk nóg,“ sagði Guðjón Valur Sigurðsson í viðtali við Morgunblaðið 14. nóvember 2015. 

mbl.is