Við misstum frumkvæðið

Ásbjörn Friðriksson.
Ásbjörn Friðriksson. mbl.is/Árni Sæberg

„Við misstum frumkvæðið í leiknum um miðjan fyrri hálfleik og vorum að elta Selfyssingana eftir það,“ sagði Ásbjörn Friðriksson, fyrirliði FH-inga, við mbl.is eftir tap liðsins á heimavelli fyrir Íslandsmeisturum Selfoss í 1. umferð Olís-deildar karla í handknattleik í kvöld.

„Við náðum að komast inn í leikinn og jafna þegar einhverjar fimmtán mínútur voru eftir en á óskiljanlegan hátt virtumst við missa hausinn og tæmingarnar í kerfunum voru ekki réttar. Á móti svona hreyfanlegri vörn þurfum við að tikka eins og klukka og við fórum að þröngva okkur í erfiðar stöður.

Það er Hauki að þakka að línumenn Selfyssinga fá þessi færi og við þurfum að vera miklu þéttari og fastari fyrir í vörninni. Við náðum ekki að stoppa Hauk en hrós á Selfyssingana. Þeir voru bara betri og við þurfum að einbeita okkur að næsta leik,“ sagði Ásbjörn, sem var að venju góður í liði FH en hann skoraði sex mörk og átti stærstan þátt í að koma sínum mönnum aftur inn í leikinn í seinni hálfleik.

mbl.is