Kiel hafði betur gegn meisturunum

Gísli Þorgeir Kristjánsson og samherjar hans í Kiel lögðu meistarana …
Gísli Þorgeir Kristjánsson og samherjar hans í Kiel lögðu meistarana í kvöld. Ljósmynd/Kiel

Kiel og Flensburg, sem börðust svo hart um þýska meistaratitilinn í handbolta á síðasta tímabili, áttust við í Sparkassen-Arena í Kiel í kvöld.

Kiel hafði betur gegn ríkjandi meisturum, 28:24. Kiel var 18:13 yfir í hálfleik en Flensburg byrjaði seinni hálfleikinn með því að skora fimm fyrstu mörkin og allt stefndi í spennuleik en heimamenn voru sterkari á lokakaflanum þar sem danski landsliðsmarkvörðurinn Nicklas Landin skellti í lás eftir að hafa verið frekar rólegur framan af leik.

Gísli Þorgeir Kristjánsson kom inná þegar fimm mínútur voru eftir en hann fékk aðeins að spreyta sig í einni sókn. Svíarnir Niclas Ekberg og Lucas Nilsson voru markahæstir í liði Kiel með fimm mörk hvor.

Rhein-Neckar Löwen, undir stjórn Kristjáns Andréssonar, burstaði  Balingen 37:26. Alexander Petersson komst ekki á blað fyrir Löwen en Oddur Gretarsson skoraði fjögur mörk fyrir Balingen.

Magdeburg, Hannover-Burgdorf og Rhein Neckar-Löwen eru með átta stig í efsta sæti og Kiel kemur þar á eftir með sex stig eins og Leipzig.

mbl.is