„Forréttindi að spila með Haukum“

Vignir Svavarsson skýtur að marki KA í kvöld.
Vignir Svavarsson skýtur að marki KA í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Gamla kempan Vignir Svavarsson var aðalmaðurinn í KA-heimilinu í kvöld þegar Haukar lögðu KA 26:23 í Olís-deild karla í handbolta. Leitað var til hans þegar Haukunum gekk hvað verst í sókninni og KA var að herða tökin á leiknum. Snerist taflið á augabragði og Haukarnir litu aldrei til baka eftir það.

Hvað er langt síðan þú varst hér að spila?

„Það hljóta að vera 14 ár síðan. Ég hef ekki spilað í íslensku deildinni í 14 ár. Það er alltaf gaman að koma hingað norður að spila, ferðalagið er að vísu dálítið langt en stemningin hér er alltaf góð. Það var engin undantekning á því í kvöld.“

Þú áttir skínandi leik, sérstaklega í seinni hálfleiknum. Þá var greinilegt að það átti að koma boltanum á þig þegar KA-menn voru búnir að ná forustunni. Þetta herbragð ykkar heppnaðist og leikurinn snerist á augabragði.

„Þetta var ákveðið af þjálfurunum. Ég átti nokkur kíló á strákana í vörninni hjá KA og vörnin þeirra var þannig að það var ágætis pláss fyrir mig til að sprikla eitthvað inni á línunni. Við nýttum okkur það á tímabili og það gekk bara ágætlega.“

Þetta var sveiflukenndur leikur og þið voruð í nokkru basli í hálftíma um miðjan leikinn. Hvernig leið þér þá. Fannst þér kannski eins og þið væruð alltaf með þennan leik i höndunum?

„Nei. Það kom dálítið langur kafli, seinni hluti fyrri hálfleiks og svo fyrri hluti seinni hálfleiks, þar sem við vorum bara í vandræðum. Við byrjuðum mjög vel en misstum svo tökin og það var orðið jafnt í hálfleik. KA spilaði mjög vel fram í miðjan seinni hálfleikinn en þá tókum við aftur stjórnina. Eftir að við komumst aftur yfir var þetta aldrei alveg öruggt en við kláruðum dæmið.“

En fyrir þig að vera aftur kominn í Hauka. Hvernig er það?

„Það er algjör draumur. Haukar er mitt félag og það er æðislegt að geta komið heim eftir öll þessi ár úti. Á Íslandi hef ég bara spilað með Haukum og það eru forréttindi að gera það.“

Hvað sérðu fram á að vera lengi að?

„Sex, sjö ár í viðbót. Nei, nei. Á mínum aldri verður maður bara að taka eitt ár í einu og sjá svo til á vorin,“ sagði glaðbeittur Vignir að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert