Góð byrjun Viggós og félaga hélt áfram

Viggó Kristjánsson og Leipzig fara vel af stað.
Viggó Kristjánsson og Leipzig fara vel af stað.

Viggó Kristjánsson og samherjar hans í Leipzig höfðu betur gegn Göppingen, 26:25, á heimavelli sínum í þýsku 1. deildinni í handbolta í kvöld. Viggó skoraði eitt mark fyrir Leipzig, sem er með átta stig eftir fimm leiki og í fjórða sæti. 

Hannover-Burgdorf er óvænt eina liðið með fullt hús stiga eftir fimm leiki. Liðið vann Bergischer á heimavelli, 30:24. Arnór Þór Gunnarsson var markahæstur hjá Bergischer með fimm mörk og Ragnar Jóhannsson skoraði tvö. 

Elvar Ásgeirsson átti fínan leik fyrir Stuttgart sem mátti þola 27:36-tap á heimavelli gegn Füchse Berlín á útivelli. Elvar skoraði fimm mörk og var markahæstur í sínu liði. Stuttgart er í 16. sæti af 18 liðum með eitt stig. 

Lærisveinar Aðalsteins Eyjólfssonar í Erlangen gerðu 26:26-jafntefli við Bjarka Má Elísson og félaga í Lemgo. Bjarki Már skoraði tvö mörk fyrir Lemgo. Bæði lið eru með þrjú stig í 13. og 14. sæti. 

Geir Sveinsson, þjálfari Nordhorn, gat ekki komið í veg fyrir 27:34-tap sinna manna gegn Wetzlar á útivelli. Nordhorn er án stiga á botninum. 

Í 2. deildinni varði Aron Rafn Eðvarðsson tvö skot hjá Hamburg sem tapaði á heimavelli fyrir Hamm, 26:32. Hamburg er í þriðja sæti með sex stig. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert