Haukar unnu kaflaskiptan leik á Akureyri

KA-maðurinn Einar Birgir Stefánsson tekur Vigni Svavarsson úr Haukum föstum …
KA-maðurinn Einar Birgir Stefánsson tekur Vigni Svavarsson úr Haukum föstum tökum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

KA og Haukar spiluðu í Olís-deild karla í í handbolta í kvöld og var leikið í KA-heimilinu á Akureyri. Fyrri hluta fyrri hálfleiks var eins og Haukarnir væru bara á léttri æfingu. Þeir rúlluðu yfir KA-menn og Grétar Ari Guðjónsson gaf tóninn með hörku markvörslu.

Eftir sex mínútur var staðan 5:1 og KA-menn búnir að splæsa í leikhlé. Haukarnir héldu hreðjataki á leiknum fram í miðjan hálfleikinn en þá hrökk allt í baklás hjá þeim og KA kom sterkara inn í leikinn. Jovan Kukobat datt í gang í marki KA og varði eins og brjálæðingur. Haukar fundu engar glufur og á stuttum kafla fór staðan úr 9:5 í 10:10. Jafnt var svo í hálfleik, 11:11.

KA hafði byr í seglin fram í miðjan seinni hálfleik og leiddi leikinn. Haukar leituðu þá til Vignis Svavarssonar sem skoraði mörk af línunni og fiskaði víti og brottrekstra. Vörn Hauka fór síðan í gang og lokaði algjörlega á ráðvillta KA-menn. Haukar sigu fram úr og sigldu nokkuð örugglega í höfn með sigur sinn. Atli Már Báruson kom sterkur inn á lokakaflanum þar sem hann hnoðaðst með boltann og skoraði nokkur mikilvæg mörk.

Haukar eru með fullt hús eftir fyrstu tvo leikina en KA-menn er enn stigalausir. Bestur hjá KA í dag var markvörðurinn Jovan Kukobat en Daði Jónsson var einnig góður í vörninni. Haukarnir áttu nokkra mikilvæga menn. Grétar Ari varði lengstum vel í leiknum og svo komu Vignir og Atli Már sterkir inn í seinni hálfleiknum.

KA 23:26 Haukar opna loka
60. mín. Allan Nordberg (KA) fékk 2 mínútur
mbl.is