„Við vorum að taka Íslandsmeistarana“

Sigurður Ingiberg Ólafsson í leik gegn ÍR, en hann leikur …
Sigurður Ingiberg Ólafsson í leik gegn ÍR, en hann leikur með ÍR í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingiberg Ólafsson fór á kostum í marki ÍR sem lagði Íslandsmeistara Selfoss 35:28 í Olísdeild karla í handbolta á Selfossi í kvöld.

Sigurður varði vel, jafnt og þétt allan leikinn og tók marga bolta á mikilvægum augnablikum. Hann varði samtals 15 skot og var með 35% markvörslu.

„Ég hef aldrei tapað hérna. Það er ógeðslega gaman að spila í þessu húsi, flottir áhorfendur og fín stemning,“ sagði Sigurður í samtali við mbl.is eftir leik en hann naut sín greinilega vel í markinu í kvöld.

„Já, ég elska svona stemningu. Ég get ekki verið lélegur þegar stemningin er svona mikil. Ég gjörsamlega nærist á þessu. Þetta var flottur leikur hjá okkur, liðið spilaði bara heilt á litið vel. Við byrjuðum reyndar mjög illa en eftir svona tíu mínútur náðum við að ranka við okkur og vörnin fór gjörsamlega á flug,“ sagði Sigurður ennfremur.

„Við vorum að taka Íslandsmeistarana í geggjuðum leik. Mér leið aldrei eins og þeir væru að fara að jafna þetta, þetta var bara mjög sannfærandi hjá okkur. Ég sá bara stemninguna í liðinu og ég hafði góða tilfinningu fyrir þessu allan tímann,“ bætti markvörðurinn knái við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert