Danir stefna á gullið á EM og jafna afrek Frakka

Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana.
Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana. AFP

Nikolaj Jacobsen, þjálfari danska karlalandsliðsins í handknattleik, hefur sett stefnuna á að vinna gullið á Evrópumótinu sem fram fer í Svíþjóð, Noregi og Austurríki í janúar.

„Liðið er ríkjandi heimsmeistari og ólympíumeistari og í Svíþjóð fáum við einstakt tækifæri að verða einnig Evrópumeistarar. Við ætlum að stefna á það. Það eru bara Frakkar sem hafa afrekað það en nú er þessi staða uppi á borðinu fyrir okkur. Það hlýtur að vera mikil hvatning fyrir leikmennina og ég hlakka til verkefnisins,“ segir Jacobsen.

Danir leika í E-riðli á Evrópumótinu og verða þar í riðli með Íslendingum, Ungverjum og Rússum og verður riðillinn spilaður í Malmö í Svíþjóð.

Næsta sumar verða Danir með á ólympíuleikunum í Tókýó í Japan þar sem þeir freista þess að verja ólympíumeistaratitilinn.

„Ólympíuleikarnir eru mjög mikilvægir þar sem við ætlum að reyna að verja titilinn en það fær mig ekki til að spara leikmenn á Evrópumótinu í janúar,“ segir Jacobsen.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert