Halldór ráðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari

Halldór Jóhann Sigfússon er orðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari.
Halldór Jóhann Sigfússon er orðinn aðstoðarlandsliðsþjálfari. Ljósmynd/HSÍ

Halldór Jóhann Sigfússon hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins í handbolta. Halldór þjálfaði síðast U-21 árs lið karla hjá Barein og karlalið FH, en hann var um tíma með karla- og kvennalið FH. Arnar Pétursson er landsliðsþjálfari, en hann tók við af Axel Stefánssyni fyrr á árinu. 

Halldór lék hér heima með bæði KA og Fram auk þess að leika nokkur ár í Þýskalandi. Hann tók við þjálfun kvennaliðs Fram haustið 2012 og gerði það að Íslandsmeistara vorið 2013. Þaðan lá leiðin til FH og gerði hann karlaliðið m.a að bikarmeistara á síðustu leiktíð.

Gísli Guðmundsson hefur verið ráðinn sem markvarðaþjálfari A landsliðs kvenna. Gísli hefur mikla reynslu bæði sem leikmaður og þjálfari. Gísli hefur áður komið að markmannsþjálfun hjá HSÍ en hann hafði yfirumsjón með markvarðaþjálfun yngri landsliða HSÍ 2012–2016, síðastliðið sumar var Gísli markvarðaþjálfari U-21 árs landsliðs karla.

A-landslið kvenna hefur leik í undankeppni EM í næstu viku. Liðið leikur fyrst gegn Króatíu ytra miðvikudaginn 25. september en svo koma Frakkar í heimsókn sunnudaginn 29. september og leika gegn stelpunum okkar að Ásvöllum í Hafnarfirði kl. 16.00. Frítt verður á leikinn gegn Frökkum í boði KFC.

mbl.is