ÍR sannfærandi á Selfossi

Bjarni Fritzson þjálfari ÍR-inga ræðir við sína menn.
Bjarni Fritzson þjálfari ÍR-inga ræðir við sína menn. mbl.is/Eggert Jóhannesson

ÍR gerði sér lítið fyrir og skellti Íslandsmeisturum Selfoss sannfærandi á heimavelli meistaranna í Iðu í gærkvöldi. Lokatölur urðu 35:28.

ÍR fór mjög hægt inn í leikinn og ætlaði greinilega ekki að hleypa Selfosshraðlestinni af stað. Selfyssingar áttu ekki í neinum vandræðum með að svara þessu útspili en þegar hraðinn jókst fataðist meisturunum flugið sem er óvenjulegt.

ÍR sneri leiknum sér í vil á lokakafla fyrri hálfleiks þar sem staðan var 13:15 í leikhléi. Þeir létu svo kné fylgja kviði í upphafi seinni hálfleiks og lögðu grunninn að góðum sigri.

Markverðir beggja liða voru góðir í fyrri hálfleiknum en það sem breyttist í þeim síðari var að Selfyssingarnir hættu að verja – og verjast – á meðan Sigurður Ingiberg Ólafsson hélt áfram að fara á kostum í marki ÍR. Hann nærðist á stemningunni í húsinu og lokaði á lykilaugnablikum eins og oft áður í leikjum gegn Selfossi.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn illa og náði sér aldrei á flug eftir það. Vörnin var ekki góð og þeir fengu litla markvörslu. Í nokkur skipti fengu þeir tækifæri til þess að minnka muninn í tvö mörk, en þær sóknir fóru allar í súginn og ÍR-ingar svöruðu alltaf með því að setja mark í andlitið á meisturunum.

Gestirnir gerðu allt sem þeir gátu til þess að halda Hauki Þrastarsyni í skefjum og gekk það ágætlega. Bergvin Þór Gíslason fékk það erfiða verkefni að stoppa Hauk, og gerði það vel. Haukur skilaði samt sjö mörkum og sex stoðsendingum, en það var ekki nóg.

Sjá alla greinina á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert