Svekktur að hafa ekki unnið

Grímur Hergeirsson ræðir við sína menn.
Grímur Hergeirsson ræðir við sína menn. Ljósmynd/Guðmundur Karl

„Ég er svekktur að hafa ekki unnið. Það er svo einfalt,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, í samtali við mbl.is eftir 27:27-jafntefli við Val í 3. umferð Olísdeildar karla í handbolta í kvöld. 

„Stórt hrós á strákana að koma til baka. Þetta er erfiður útivöllur og við vorum sex mörkum undir. Við náðum að vinna okkur inn í leikinn og komast yfir, það er frábært.

Við vorum klaufar í sókninni á köflum í fyrri hálfleik, svo áttum við afleitan kafla fljótlega í seinni hálfleik, bæði í vörn og sókn. Við tókum leikhlé og náðum að þétta raðirnar, þá kviknaði á okkur aftur.

Við erum búnir að spila á tveimur erfiðum útivöllum og taka þrjú stig. Það er mjög gott. Við hefðum auðvitað viljað vinna ÍR heima en það gekk ekki. Við tökum þessi þrjú stig og reynum að byggja ofan á það,“ sagði Grímur. 

mbl.is