„Það hefur vantað þrótt í Þrótt“

Þróttur rétt slapp við fall.
Þróttur rétt slapp við fall. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Gaman að ná því sem við ætluðum okkur fyrir þennan leik fyrir framan fulla stúku af Þrótturum. Það hefur verið mikil samstaða í félaginu í vikunni og gott að allir geti labbað glaðir frá velli í dag. Fólkið sem kom nálægt þessum leik á mikið hrós skilið,“ sagði Þórhallur Siggeirsson þjálfari Þróttar kátur eftir leik Þróttar og Aftureldingar sem endaði með 0:0-jafntefli í Laugardalnum. Stigið gerði það að verkum að Þróttur heldur sér uppi í Inkasso-deildinni að ári á kostnað Hauka sem töpuðu 4:0 fyrir Gróttu.

Krefjandi tímabil að baki

Fyrir leik Þróttar og Aftureldingar í dag hafði Þróttur tapað sex leikjum í röð og var í raun hársbreidd frá því að falla. Spurður út í hvernig hann meti tímabilið og hvort hann hafi einhverjar skýringar á því hvers vegna liðið sogaðist niður í fallbaráttuna eftir að hafa verið í efri hlutanum um mitt tímabil segir Þórhallur að sumarið hafi verið mjög krefjandi þar sem skipst hafi á skin og skúrir.

„Við höfum unnið leiki 7:0 og tapað 6:0. Þrátt fyrir vonbrigðatímabil gleðjumst við í dag og hlökkum til komandi tíma. Eins leiðinlegt og það hljómar snerist tímabilið mikið um að komast í gegnum það slysalaust. Það gekk en tæplega þó. Vorum eflaust með verstu þoltölur í upphafi sumars sem kom niður á okkur í mörgum leikjum. Við misstum niður úrslit á síðustu 10 mínútunum í sjö leikjum í sumar. Það eru ansi mörg stig sem fóru forgörðum. Umhverfið hefur sveiflast mikið síðustu mánuði með miklum þjálfarabreytingum og mjög miklum leikmannabreytingum.

Ég held að 25 leikmenn hafi farið síðustu tvö tímabil. Það mun taka tíma að koma á stöðugleika. Það þarf að gerast með sterkara umhverfi, þar hefst allur árangur félagsins. Það hafa því litlir fjármunir komið inn. Við höfum notað sumarið og losað leikmenn með óheppilega samninga frá okkur, við vorum eina félagið sem fór ekki í æfingaferð, við höfum ekki verið með markmannsþjálfara í sumar. Síðan kemur mótlæti úr ýmsum áttum; tveir leikmenn slíta krossbönd, tveir fá alvarlegan heilahristing, fjórir fara út í skóla o.s.frv.“

Viljum koma félaginu á beinu brautina

Spurður út í framhaldið segist Þórhallur vera jákvæður og fullur tilhlökkunar að fá heilt undirbúningstímabil til að móta liðið eftir sínu höfði:

„Hluti af því sem við tökum með okkur er að leikjafjöldi 2. fl. stráka hjá félaginu í mfl. hefur líklega aldrei verið jafn mikill og í sumar. Það eru holl skref fyrir félagið. Okkur hefur svolítið vantað þrótt í Þrótt undanfarið. Ástæðan fyrir því að ég er óhræddur við að segja þessa hluti er að við erum að loka þessum kafla. Nú fáum við undirbúningstímabil. Við erum komin með fólk í stjórn sem vill koma félaginu á beinu brautina og vinnur hörðum höndum að því. Vonandi getum við notað veturinn, þjálfað hugmyndafræði, hugarfar og hugsunarhátt. Staðið fyrir eitthvað næsta sumar sem stuðningsmenn Þróttar geta verið stoltir af.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert