Breytingarnar hrifu

Birk­ir Bene­dikts­son sæk­ir að Ægi Hrafni Jónssyni, leikmanni Fram að …
Birk­ir Bene­dikts­son sæk­ir að Ægi Hrafni Jónssyni, leikmanni Fram að Varmá í kvöld. Birk­ir skoraði sjö mörk og var marka­hæst­ur Aft­ur­eld­ing­ar­manna í tveggja marka sigri, 25:23. Hann skoraði öll mörk­in í síðari hálfleik og notaði til þess átta skot Haraldur Jónasson/Hari

Létt var yfir Einari Andra Einarssyni þjálfara Aftureldingar í kvöld eftir að lið hans lagði Fram með tveggja marka mun, 25:23, á heimavelli í þriðju umferð Olísdeildar karla í handknattleik. Einar og lærisveinar hafa þar með unnið allar viðureignir sínar til þessa í deildinni þótt leikur Aftureldingar í kvöld hafi ekki verið upp á það allra besta.

„Að þessu sinni lékum við illa í 45 mínútur. Vorum lengi í gang og ólíkir sjálfum okkur, ekki síst í fyrri hálfleik þar sem við töpuðum boltanum átta sinnum á afar einfaldan og klaufalegan hátt. Þegar á leið síðari hálfleik náðum við að snúa taflinu við eftir að hafa breytt um varnarleik og stillt upp sjö mönnum í sókninni. Breytingarnar nægðu okkur, ekki síst í varnarleiknum því þegar við fórum að sækja út á Þorgrím Smára neyddum við Framliðið í aðgerðir sem mistókust hjá þeim,“ sagði Einar Andri sem viðurkenndi að sóknarleikurinn hefði ekki verið öflugur lengi vel. „Síðustu tíu til fimmtán mínúturnar held ég að aðeins tvær sóknir hafi ekki skilað okkur mörkum,“ sagði Einar Andri sem viðurkennir að Framliðið hafi oftar en ekki á síðustu árum reynst Aftureldingu og honum erfitt.

„Við vorum ekki sjálfum okkur líkir að þessu sinni. Hraðinn var ekki nægur í sóknarleiknum auk þess sem við náðum varla hraðaupphlaupi. En okkur tókst að krækja í stigin tvö. Það skiptir máli þegar upp er staðið,“ sagði Einar Andi sem segist ekki getað kvartað um þessar mundir. Þrír sigrar í  þremur leikjum séu mikilvægastir þegar upp er staðið. „Í upphafi móts snýst dæmið fyrst og fremst um að vinna leikina og létta spennu af öllum, utan vallar sem innan,“ sagði Einar Andri Einarsson þjálfari karlaliðs Aftureldingar í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert