Ljósið í myrkrinu

Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, segir að sínir menn eigi langt …
Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, segir að sínir menn eigi langt í land þrátt fyrir að liðið sé með fullt hús stiga. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Núna snýst þetta einfaldlega um að safna þeim stigum sem í boði eru og það gerðum við í dag,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við mbl.is eftir 23:20-sigur liðsins gegn Stjörnunni í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í þriðju umferð deildarinnar í dag.

„Ég er fyrst og fremst ánægður með karakter strákanna að ná að snúa þessum leik við, eftir að við höfum verið fjórum mörkum undir í hálfleik. Að sama skapi get ég ekki sagt að ég hafi verið sáttur við meirihluta leiksins. Við eigum langt í land sóknarlega og þurfum að bæta okkur ansi hratt. Af þeim sextíu mínútum sem við spiluðum í dag var ég kannski ánægður með tuttugu.“

Sóknarleikur Hauka var afar dapur framan af leik og hægur og Gunnar viðurkennir að menn þurfi að bæta sig hratt.

„Það vantar mjög mikið hjá okkur sóknarlega og við þurfum allir að gera betur þar. Við erum of hægir eins og staðan er í dag og núna þurfa allir að leggjast á eitt að bæta sig. Ég var mjög ánægður með bæði vörn og markvörslu í dag og að fá á sig 20 mörk er alls ekki slæmt.“

Brynjólfur Snær Brynjólfsson var frábær fyrir Hauka í síðari hálfleik og átti stóran þátt í sigri Hafnfirðinga.

„Við komum Binna í góð færi og að sama skapi var hann sjóðandi heitur. Hann kom okkur í raun inn í leikinn á ákveðnum tímapunkti og það má í raun segja að hann hafi verið ljósið í myrkrinu í sóknarleiknum og hann á stóran þátt í því að okkur tókst að snúa þessu við,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert