Vonandi fara hefðarkettirnir að skjálfa

Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, var vægast sagt ósáttur eftir tap …
Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, var vægast sagt ósáttur eftir tap sinna manna gegn Haukum í dag. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

„Ég er hrikalega svekktur með þetta tap,“ sagði Rúnar Sigtryggsson, þjálfari Stjörnunnar, í samtali við mbl.is eftir 23:20-tap liðsins gegn Haukum í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í þriðju umferð deildarinnar í dag.

„Svekktastur er ég samt með ákveðna reynslubolta í þessu liði sem voru heilir heilsu á meðan aðrir reynsluboltar voru að fórna sér á annarri löppinni í leiknum. Þessir leikmenn skiluðu ekki neinu, hjálpuðu liðinu ekkert, og fóru ekki eftir því sem lagt var upp með í upphafi leiks. Þeir stigu ekki upp til þess að hjálpa liðsfélögum sínum þegar mest á reyndi í dag og ég er ósáttur við það. Dómgæslan var eins og hún var og ég veit satt best að segja ekki hvort Haukarnir hafi þurft svona mikla hjálp.“

Stjarnan leiddi með fjórum mörkum í hálfleik en sóknarleikur liðsins dalaði mikið í seinni hálfleik og Haukar gengu á lagið.

„Við erum að spila með unga útilínu og þeir eru allir rétthentir. Það er erfitt að spila þannig í sextíu mínútur og við vorum meðvitaðir um það fyrir leikinn. Þetta er hins vegar útilínan sem er í boði í dag og mér fannst strákarnir gera þetta vel. Þeir kláruðu sóknirnar sínar vel og voru duglegir að hlaupa til baka. Það var komin smá þreyta hjá okkur undir restina og við misstum dampinn þegar við byrjuðum að rótera og náðum þess vegna ekki að klára leikinn.“

Rúnar var ómyrkur í máli í leikslok og var ósáttur við marga af lykilmönnum liðsins sem hann vill einfaldlega fá miklu meira frá.

„Fyrir mér snýst þetta bara um að vinna leiki. Menn þurfa að sýna einhvern smá vilja í að vilja vinna leikina, ekki bara vera inni á vellinum og vera flott greiddir. Það þarf að vera eitthvað járn í þessu en að sama skapi voru líka menn sem áttu mjög flottan leik. Þessi leikur í kvöld var engu að síður skref fram á við hjá okkur og við vinnum næsta leik. Það þurfa hins vegar leikmenn hjá okkur að stíga upp, leikmenn sem vilja vera kallaðir lykilmenn, þetta er Olísdeildin og það er ekki hægt að vera í einhverri sjálfboðavinnu hérna. Ég vil fá miklu meira frá leikmönnum liðsins, meiri baráttu, og sem betur fer kannski erum við að fá menn til baka úr meiðslum. Þá verður meiri samkeppni innan liðsins um að komast í hópinn og þá fara vonandi einhverjir hefðarkettirnir að skjálfa,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert