Afturelding á sigurbraut gegn lánlausu Framliði

Birkir Benediktsson skoraði sjö mörk úr átta skotum fyrir Aftureldingu …
Birkir Benediktsson skoraði sjö mörk úr átta skotum fyrir Aftureldingu í gær. mbl.is/Hari

Afturelding hefur áfram fullt hús stiga í Olísdeild karla í handknattleik eftir sigur á lánlausum leikmönnum Fram, 25:23, á Varmá í gærkvöldi í viðureign þar sem Framliðið var sterkara lengst af. Það dugði þeim Safamýrardrengjum skammt og þeir sitja enn á botni deildarinnar án stiga en geta þó huggað sig með að framfaramerki eru á leik þeirra. Hvort sem þeim er nú huggun í þeirri staðreynd eða ekki.

Fram var nánast án undantekninga með yfirhöndina í viðureigninni á Varmá í 45 mínútur. Mest var forskotið fimm mörk. Aftureldingarliðið virtist miður sín lengi vel og leikmenn gerðu sig seka um einföld mistök í sóknarleiknum. Þegar á leið hrifu hins vegar breytingar á sóknar- og varnarleik liðsins. Sjö manna sóknarleikur Mosfellinga reyndist Framliðinu þrautin þyngri að leysa auk þess sem 5/1-vörn heimamanna olli gestunum búsifjum, svo slæmum að þeim féll nánast allur ketill í eld um tíma. Mosfellingar nýttu tækifærið, sneru taflinu við og náðu að hanga á forskotinu eins og hundur á roði á endasprettinum. iben@mbl.is

Markvarsla Stephens ekki nóg

Haukar sluppu með skrekkinn þegar liðið tók á móti Stjörnunni í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í þriðju umferð deildarinnar í gær. Leiknum lauk með þriggja marka sigri Hauka, 23:20, en Garðbæingar leiddu með fjórum mörkum í hálfleik.

Haukar spiluðu hreinlega illa fyrstu fjörutíu mínútur leiksins og sóknarleikur liðsins var langt frá því að vera til útflutnings. Leikmenn voru hægir, sóknirnar mjög tilviljunarkenndar og skotin slök. Grétar Ari Guðjónsson og Brynjólfur Snær Brynjólfsson komu sínu liði inn í leikinn á ögurstundu.

Greinina má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert