ÍR-ingar áfram ósigraðir

KA og ÍR eigast við í KA heimilinu í kvöld.
KA og ÍR eigast við í KA heimilinu í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

KA og ÍR spiluðu í 4. umferð Olís-deildar karla í handbolta í KA-heimilinu í kvöld. Eftir jafnan og þrælskemmtilegan fyrri hálfleik tóku ÍR-ingar völdin í þeim síðari og þeir unnu leikinn nokkuð þægilega, 33:27.

Leikurinn var hraður og skemmtilegur allan fyrri hálfleikinn og markmenn beggja liða sýndu góð tilþrif. Voru þeir einkar lunknir við að verja frá mönnum sem voru komnir í dauðafæri. KA byrjaði ögn betur og komst í 2:0. Síðan skiptust liðin á að jafna leikinn og koma sér yfir en forustan skipti um hendur alls átta sinnum í fyrri hálfleiknum. KA hafði eins marks forskot í hálfleik, 15:14.

Björgvin Hólmgeirsson og Sturla Ásgeirsson voru illviðráðanlegir í liði ÍR og fóru fyrir sínum mönnum ásamt markmanninum Sigurði Ingibergi Ólafssyni. Hann varði átta skot í fyrri hálfleik. Jovan Kukobat var ekki eins sprækur í KA-markinu en Svavar Ingi Sigmundsson leysti hann af og byrjaði með látum. Áki Egilsnes fór fyrir sókn KA en aðrir lögðu sitt á vogaskálarnar og var gaman að sjá hinn vígalega Jón Heiðar Sigurðsson brjótast að marki ÍR.

Daníel Griffin fékk rautt spjald snemma leiks og var því sendur í snemmbúna sturtu, annan leikinn í röð. ÍR var ekki lengi að snúa leiknum sér í vil í seinni hálfleik og án þess að KA-menn fengju rönd við reist þá var staðan allt í einu orðin 23:17 fyrir ÍR og fjórtán mínútur búnar af seinni hálfleiknum. KA-menn voru algerlega úti á túni á þessum kafla, bæði í sókn og vörn. Síðasta kortér leiksins reyndu heimamenn að vinna upp muninn en ÍR var ekkert að gefa neitt og Breiðhyltingar unnu að lokum þægilegan 33:27-sigur.

Sem fyrr voru það Björgvin og Sturla sem drógu vagn ÍR-inga en Patrekur Stefánsson kom beittur inn á lokakaflanum fyrir KA-menn.

ÍR er á toppnum í deildinni með fullt hús en KA er í botnslag með sín tvö stig.

Uppfærist sjálfkrafa meðan leikur er í gangi

Allar lýsingar í beinni

KA 27:33 ÍR opna loka
60. mín. Leik lokið Frábær sigur hjá ÍR. Þeir rúlluðu KA-mönnum upp á fimmtán mínútna kafla í seinni hálfleik og það dugði.
mbl.is