Fyrstu stig Akureyringa

Ásdís Guðmundsdóttir úr KA/Þór í góðu færi í leiknum í …
Ásdís Guðmundsdóttir úr KA/Þór í góðu færi í leiknum í kvöld. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

KA/Þór krækti í sín fyrstu sig í úrvalsdeild kvenna í handknattleik, Olísdeildinni, í kvöld með því að sigra HK í hörkuspennandi leik í KA-heimilinu á Akureyri, 26:25. Bæði lið eru nú með 2 stig eftir þrjá leiki.

Staðan í hálfleik var 15:12 fyrir Akureyringa og HK tókst aldrei að jafna í seinni hálfleiknum þó munurinn hafi margoft aðeins verið eitt mark. Þór/KA komst síðan í 26:23 undir lokin og tvö mörk frá HK dugðu skammt.

Martha Hermannsdóttir skoraði 7 mörk fyrir KA/Þór, Rakel Sara Elvarsdóttir 6, Ásdís Sigurðardóttir 3, Aldís Ásta Heimisdóttir 2, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Katrín Vilhjálmsdóttir 2, Ásdís Guðmundsdóttir 2, Martina Corkovic 1 og Anna Þyrí Halldórsdóttir 1. Matea Lonac varði 16 skot í marki liðsins.

Díana Kristín Sigmarsdóttir skoraði 7 mörk fyrir HK, Sigríður Hauksdóttir 4, Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir 4, Tinna Sól Björgvinsdóttir 3, Elna Ólöf Guðjónsdóttir 3, Berglind Þorsteinsdóttir 2, Sóley Ívarsdóttir 1 og Jóhanna Margrét Sigurðardóttir 1. Sara Sif Helgadóttir varði 16 skot í marki liðsins.

mbl.is